133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að við séum sammála um að við berum bæði ábyrgð og höfum rétt til að vernda og nýta auðlindir okkar á sjálfbæran hátt og í samræmi við alþjóðalög og samninga sem við erum aðilar að. En þetta snýst um fleira. Allt hátterni okkar snýst um trúverðugleika, um það að vera sannur.

Ég átti því láni að fagna að vera í Bandaríkjunum, New York, í haust og heimsótti þar Iceland Naturally sem er sérstakt markaðsátak fyrir íslenska vöru og kannski íslenska ímynd. Ég verð að segja að mér blöskraði að sjá þar kynningarefni þar sem Ísland var kynnt með fljótasiglingum niður í gegnum jökulsárnar í Skagafirði, fallegar myndir og glæsilegar, með þeirri ríkisstjórn sem hefur það á stefnuskrá sinni að stífla og eyðileggja þessi sömu fljótt. Okkur var líka gerð grein fyrir því að hvalveiðarnar í atvinnuskyni mundu skaða þessa sömu ímynd, vinna henni tjón. Hversu mikið? Það voru engar upphrópanir eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra er hér með um heimsendi eða þess háttar, enda sýnir það bara lélegan málstað ef menn þurfa að grípa til slíkra orða. Þeir vöruðu mjög ákveðið við þessu.

Erum við trúverðug þegar við samtímis leggjum mikla fjármuni í að markaðssetja ímynd sem byggir á því að við stundum m.a. ekki iðnaðarveiðar á hval en förum síðan með einhverri skyndiákvörðun beint út í þingið og gerum það? Þetta snýst um trúverðugleika, (Forseti hringir.) um heiðarleika í kynningu á Íslandi og þar skortir nokkuð á (Forseti hringir.) núna, hæstv. sjávarútvegsráðherra.