133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:22]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við það að hafa gert lítið úr starfi Íslendinga sem hafa unnið að markaðsmálum. Þvert á móti vakti ég einmitt athygli á því hvernig markaðurinn hefur brugðist við á undanförnum mánuðum, m.a. með heimsóknum til mín, og ég hef vakið athygli á stöðu íslensks sjávarútvegs. Er það að gera lítið úr starfi okkar að markaðsmálum? Það er auðvitað alls ekki þannig.

Hv. þingmaður sagði að við hefðum gert út á það að vera ríki sem hafi vit á því að nýta auðlindir. Já, það höfum við nákvæmlega verið að gera. Við höfum gert út á það að vera ríki sem vill nýta auðlindir sínar með sjálfbærum hætti. Það er grundvöllurinn þarna á bak við þegar við erum að hefja hvalveiðarnar.

Hv. þingmaður talaði um að það væri menntað fólk sem hefði aðra skoðun. Með öðrum orðum, það er ómenntaður, óupplýstur lýður sem er ósammála hv. þingmanni. Það var það sem út af fyrir sig fólst í þessum orðum.

Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þessi hvalamál. Mér fannst vera heilmikil tíðindi í þessari umræðu og það voru ekki tíðindin sem sneru að hvalamálunum, við höfum oft farið yfir þau mál. Stóru pólitísku tíðindin voru þau sem komu fram í máli hv. talsmanna Samfylkingarinnar sem kváðu upp úr um það sem mér var ekki ljóst að væri stefna þeirra, að þeir eru núna búnir að lýsa því yfir að þeir vilji leggjast á sveif með þeim sem vilja banna botnvörpuveiðar. Þeir vilja með öðrum orðum ekki stunda botnvörpuveiðar á úthöfunum, ekki fara þá leið sem við kusum að fara á ráðstefnunni hjá Sameinuðu þjóðunum á dögunum, líka Kanadamenn, ýmsar stórþjóðir og m.a. Evrópusambandið, þá leið að reyna að móta stefnu um það að vernda viðkvæm hafsvæði. Þegar hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að tillaga mín og ríkisstjórnarinnar sem varð niðurstaða hjá Sameinuðu þjóðunum brjóti niður orðspor okkar er hv. þingmaður að segja nákvæmlega það sama væntanlega um aðrar þjóðir, og ríkjasambönd eins og Evrópusambandið, að Evrópusambandið brjóti niður orðspor þessara ríkja í náttúruverndarmálum með stefnu sinni sem var stefna okkar Íslendinga, að hafna yfirþjóðlegu banni við botnvörpuveiðum. (Forseti hringir.) Þetta er stórpólitísk yfirlýsing og hlýtur að vekja mikla athygli.