133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

breyting á XXII. viðauka við EES-samninginn.

349. mál
[10:27]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 70/2005, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins miðar að því að samræma og styrkja reglur um yfirtökutilboð í Evrópu og tryggja jafna meðferð og aukin réttindi hluthafa í yfirtökum.

Í tilskipuninni, sem nær til félaga sem fengið hafa skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa og skipulegan verðbréfamarkað, eru sett lágmarksskilyrði sem ná bæði til skyldubundinna tilboða og almennra valfrjálsra tilboða en aðildarríkjum er heimilt að setja fleiri skilyrði og strangari ákvæði en kveðið er á um í tilskipuninni. Innleiðing til skipunarinnar kallar á lagabreytingu en meginhluti hennar hefur þegar verið innleiddur með lögum.

Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Hún fékk á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur, Ólöfu Hrefnu Kristjánsdóttur og Sesselju Sigurðardóttur frá utanríkisráðuneyti og Harald Örn Ólafsson og Hrein Hrafnkelsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.