133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[10:56]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr. tók ég þátt í þeirri umræðu og rakti ítarlega skoðanir mínar á þessu frumvarpi og hve aftarlega við værum meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við að koma hér á atvinnulýðræði sem er vel þekkt í öðrum löndum og hefur verið í marga áratugi. Með þessu frumvarpi erum við að uppfylla ákvæði tilskipunar en það var gert með þeim hætti að það tók í fyrsta lagi mjög langan tíma og að auki komu aðilar vinnumarkaðarins sér ekki saman um efni frumvarpsins. Því fól félagsmálaráðuneytið Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst að semja drög að frumvarpi til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar hér á landi. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, sem ég ætla að halda til haga að nú þegar við innleiðum smáskref í áttina að einhverjum vísi að atvinnulýðræði er í þessu frumvarpi gengið eins skammt og hægt er, öll frestunarákvæði og lágmarksréttur nýtt að fullu og það er það sem ég er mjög óánægð með.

Það kemur fram í nefndaráliti sem framsögumaður félagsmálanefndar mælti fyrir að við, fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni, skrifum undir álitið með fyrirvara og áskiljum okkur jafnframt rétt til að leggja fram breytingartillögu. Við viljum að gildissvið frumvarpsins verði rýmkað og að aðilum vinnumarkaðarins verði ekki heimilað að semja sig frá lágmarkskröfum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það kemur einmitt fram í ákvæðum þessa frumvarps að slíkt er heimilt. Við flytjum því breytingartillögur sem mæta þessum sjónarmiðum okkar sem ég vil nú gera grein fyrir í örstuttu máli.

Það er í fyrsta lagi gildissvið laganna, það er einungis gert ráð fyrir að lögin nái til fyrirtækja þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn á innlendum markaði. Að auki er sett ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að fram til 1. mars 2008 eigi ákvæði þessa frumvarps, sem er aðeins smávísir að atvinnulýðræði, að takmarkast við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn. Það á sem sagt fyrst að innleiða þetta þannig að það nái aðeins til fyrirtækja þar sem starfa 100 starfsmenn og síðan þegar lögin eru þá að fullu komin til framkvæmda nær gildissviðið til fyrirtækja þar sem starfa a.m.k. 50 starfsmenn.

Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? Þetta þýðir að fram til 1. mars 2008 nær ákvæðið til 224 fyrirtækja og þegar það hefur að fullu verið innleitt nær það til 437 fyrirtækja. Við erum sem sagt að tala um að þegar þetta hefur verið innleitt að fullu og nær þá til 437 fyrirtækja erum við sennilega að tala um kringum 4 þús. starfsmenn, virðulegi forseti.

Hvað eru nú margir starfsmenn á vinnumarkaðnum? Um það fékk ég tölu og þar erum við að tala um 164.880 starfsmenn þegar talið er alveg niður í smæstu fyrirtæki en ákvæði þessa frumvarps þegar það hefur að fullu tekið gildi nær rétt til liðlega 4 þús. starfsmanna og á að innleiða í þrepum. Það sjá allir í hendi sér að við erum ekki að taka stórt skref í áttina að virku atvinnulýðræði hér á landi. Reyndar hafði ASÍ lagt til að ákvæðið ætti að ná til fyrirtækja sem hefðu í þjónustu sinni a.m.k. 20 starfsmenn þannig að það var langur vegur frá því að sjónarmið mættust að því er varðar atvinnurekendahliðina og launþegahliðina í þessu máli.

Við leggjum í þessari breytingartillögu á þskj. 524 til að í stað orðanna „50 starfsmenn“ í 1. mgr. komi: 20 starfsmenn. Þar mætum við sjónarmiðum ASÍ og við leggjum til, til þess að koma þá aðeins til móts við sjónarmið Samtaka atvinnulífsins, að í ákvæði til bráðabirgða í stað orðanna „100 starfsmenn“ komi: 50 starfsmenn, sem gildi þá til 1. mars 2009 en að ákvæði frumvarpsins nái til 20 starfsmanna þegar það hefur að fullu tekið gildi. Ég held að það sé algjört lágmark að gera þetta með þessum hætti. Þessa breytingartillögu flytja ásamt mér hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson. Auk framangreinds leggjum við til breytingu á 6. gr. frumvarpsins. Þar segir:

„Heimilt er með kjarasamningum eða samningum milli atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna að kveða á um tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs innan fyrirtækja og eftir atvikum að víkja frá ákvæðum 4. og 5. gr. að því tilskildu að markmiða laganna sé gætt, sbr. 2. gr.“

Þetta eru auðvitað mikilvæg ákvæði sem heimilt er þarna að víkja frá, sem er 4. og 5. gr. 4. gr. fjallar um upplýsingar, að atvinnurekendur skuli veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar um eftirfarandi, með leyfi forseta:

„a. nýliðna þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins,

b. stöðu, skipulag og horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað,

c. ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, þar með taldar ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir.“

Síðan er það sem einnig má víkja frá, 5. gr., og hún fjallar um samráð, t.d. eins og segir, með leyfi forseta, í inngangi þeirrar greinar:

„Í framhaldi af upplýsingagjöf skv. b- og c-lið 1. mgr. 4. gr. skal fulltrúum starfsmanna gefast kostur á samráði með því að eiga fund með atvinnurekanda og fá viðbrögð frá honum við því áliti sem þeir kunna að setja fram. Jafnframt skal atvinnurekandi gera fulltrúum starfsmanna grein fyrir ástæðum viðbragða sinna.“

Þetta eru tvö mikilvæg atriði sem atvinnurekendum er heimilt að víkja frá, það er þeirra einna að ákveða hvort þeir víki frá þessum ákvæðum laganna eða ekki þannig að eftir því sem lengra og dýpra er kafað ofan í þetta mál er það hvorki fugl né fiskur, virðulegi forseti. Hvernig til tekst svo með framkvæmdina á því ræðst auðvitað mikið af því hvernig aðilar vinnumarkaðarins halda á þessu máli í framhaldinu, hvort ASÍ efni þá til skipulagðrar kynningar á rétti og skyldum starfsfólks samkvæmt þessum lögum og upplýsi t.d. trúnaðarmenn fyrirtækjanna um innihald þessara laga og hvernig launþegar geti sem best nýtt sér þau. Reynslan verður að skera úr um hvernig það gengur.

Ég fór ofan í bæði greinargerð og einstakar greinar þessa frumvarps við 1. umr. þar sem ég sýndi fram á hve loðið þetta frumvarp er og ákvæði þess og hvað það væri raunverulega allt í hendi atvinnurekenda að víkja frá þessu, ákveða sjálfir hvenær þeir kalla til þessa samráðs, með hve löngum fyrirvara þegar eitthvað kemur upp í starfseminni sem t.d. ógnar atvinnuöryggi starfsmanna o.s.frv. Mér finnst ekki mikil reisn yfir því hvernig þjóðþing Íslendinga leiðir í lög fyrsta vísi að atvinnulýðræði hér á landi.

Ég vil halda til haga í lok máls míns, skal ekki tefja þessa umræðu frekar, að við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar höfum flutt tillögu til þingsályktunar á Alþingi um atvinnulýðræði þar sem við lögðum til að félagsmálaráðherra skipaði nefnd sem hefði það hlutverk að gera tillögur um það hvernig unnt sé að tryggja áhrif starfsmanna í stjórnum og ákvarðanatöku í fyrirtækjum og stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Í því sambandi yrði haft til hliðsjónar og skoðaðar hvaða leiðir hefðu verið farnar í nágrannalöndunum, einkum í Danmörku og Þýskalandi og jafnframt á vettvangi Evrópusambandsins sem, eins og ég sagði áðan, eru komin miklu lengra í framþróun atvinnulýðræðis en við hér á landi. Það er sannfæring mín að ef við innleiðum atvinnulýðræði hér með skipulögðum hætti verði það bæði til hagsbóta fyrir launþegana og fyrir fyrirtækin sjálf.