133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:53]
Hlusta

Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur hér gert grein fyrir afstöðu sinni sem er mjög skýr og hefur komið fram áður og ekki síst á fundum í félagsmálanefnd. Ég vil lýsa því hér yfir, eins og menn vita, að ég er ósammála þessu.

Hv. þingmaður segir að þetta sé óskynsamleg breyting og við séum að afnema alla sérstöðu sjóðsins. Það er auðvitað þannig að félagsmálanefnd beindi því til lánasjóðsins að endurskoða rekstrarform sitt. Sveitarfélögin hefðu alveg getað komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að breyta neinu. En þeim fannst þetta vera góð leið að breyta sjóðnum í ohf. Málið var tekið fyrir á aðalfundi sjóðsins í haust sem haldinn var samhliða ársþingi sveitarfélaga og þar var þetta samþykkt samhljóða. Það lýsti enginn sig andvígan þessari tillögu og þetta fékk umfjöllun þar.

Mér finnst náttúrlega mikilvægt að við virðum þessa ósk sveitarfélaganna og við erum alltaf að halda því á lofti að við eigum að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Ég tel að þetta sé góð breyting og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að með þessari breytingu festum við í sessi að sérstaða sjóðsins sé tryggð með veði í tekjum. Það er auðvitað það atriði sem festir í sessi félagslegt og byggðarlegt hlutverk lánasjóðsins.

Þessi ákvæði munu haldast óbreytt hér inni og þau eru mjög mikilvæg að mínu mati og ég sé ekki ástæðu til annars en að ætla að lánasjóðurinn muni áfram halda þessum merkjum á lofti. Ég vil ítreka það hér að þetta er vilji allra sveitarfélaganna í landinu þannig að við verðum líka að virða þá ósk.