133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér aðdáunarvert að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skuli leggja á sig sagnfræðilegar rannsóknir til að upplýsa um afstöðu mína fyrr árum.

En hafi ég verið þessu samþykkur, sem ég efast ekki um og kemur fram í áliti sem hv. þingmaður vísar til, þá hefur það verið vanhugsað af minni hálfu. Þá hefur það einfaldlega verið vanhugsað af minni hálfu og ég er einmitt að beina þeim orðum til sveitarstjórna og til þeirra hér á Alþingi sem styðja þessar breytingar að þetta sé vanhugsað skref.

Ég er ekki að halda því fram að með þessu frumvarpi sé verið að afnema nokkrar félagslegar skyldur sem á sjóðnum hvíla, ef hv. þingmaður hefði lagt það á sig að hlusta á rök sem ég færði hér fram.

Ég er hins vegar að færa fyrir því rök að með þessum breytingum sé verið að veikja varnir sjóðsins þegar til lengri tíma er litið. Fyrir þessu hef ég fært rök í félagsmálanefnd og ég gerði það í máli mínu áðan ef hv. þingmaður hefði gert svo lítið að hlusta á það sem ég hafði þá fram að færa.