133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[12:00]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki oft sem við hv. þm. Ögmundur Jónasson erum ósammála. En það birtist greinilega hér að ég hef trú á því að þessi breyting gagnist sveitarfélögunum í landinu, ekkert síður en það var fyrir þessa breytingu. Það kemur hér alveg skýrt fram. Þá liggur það fyrir, og ég bið þingmanninn afsökunar á því hafi ég lagt honum í munn orð um að hann teldi að þetta veikti félagsleg markmið sjóðsins. Það gerir það ekki og það kemur skýrt fram í frumvarpinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur hér að framan er gert ráð fyrir að félagslegt og byggðalegt hlutverk lánasjóðsins verði fest í sessi með því að halda óbreyttum ákvæðum um heimild sveitarfélaga til að veita lánasjóðnum veð í tekjum sínum.“

Þarna er ákveðin sérstaða sem sjóðurinn hefur sem m.a. gerir það að verkum að hann getur veitt hagstæðari kjör til þessara smærri sveitarfélaga en þau geta fengið í bönkunum. Það er afar mikilvægt atriði að halda til haga og eins hinu að hér er um að ræða vilja allra sveitarfélaganna í landinu. Það er afar sjaldgæft að lagst sé gegn vilja allra sveitarfélaganna í landinu sem birtist greinilega í þessu frumvarpi og fram kom eindregið í félagsmálanefnd.

Af því að menn eru hræddir um það hér að nú hefjist eitthvert kapphlaup með sölu á þessum hlutabréfum er í fyrsta lagi ákvæði um að það sé ekki heimilt fyrr en 1. janúar 2009 að eiga viðskipti með hluti í lánasjóðnum. Síðan er það skilyrði að þó að einn aðili eignist hlutabréf er það háð ákveðnum takmörkunum eins og t.d. varðandi atkvæðisréttinn því enginn einn aðili getur farið með meira en að hámarki 15% atkvæðisréttar.

Mín sannfæring er sú að verið sé að stíga rétt skref til hagsbóta fyrir sveitarfélögin, ekki síst smærri sveitarfélögin úti á landi.