133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

lögheimili og skipulags- og byggingarlög.

220. mál
[12:23]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að taka til máls um þetta efni vegna þess að ég tel að þetta sé ófullnægjandi niðurstaða. Íslendingar hafa byggt gríðarlegan fjölda af húsum út um landið sem kölluð eru sumarbústaðir eða frístundabyggð. Þetta eru mjög góð hús, mörg hver, og þegar fólk eldist sest það jafnvel að í þessum húsum. Vandi fylgir þessari niðurstöðu t.d. fyrir fólk sem hefur átt tvö hús, annars vegar frístundahús og hins vegar hús í borginni. Þegar það fer á eftirlaun og selur aðra eignina, ekki ólíklega húsið í borginni, er þá verið að segja við það fólk að það megi ekki búa í húsinu sínu í sveitinni eða að það skuli hafa heimilisfangið sitt í póstkassa í Reykjavík?

Ég tel að skoða þurfi þetta mál betur, ekki bara varðandi búsetu í atvinnuhúsnæði heldur líka í búsetu í sumarhúsum sem kölluð eru eða öðrum húsum sem eru utan skipulegra byggða sem ætlaðar eru til heilsársbúsetu. Það kann vel að vera að menn þurfi að sætta sig við að fara aðra leið en þessa, a.m.k. held ég að það sé ljóst að það verður aldrei hægt að banna fólki að búa í húsunum sínum. Það mun ekki koma í veg fyrir þá búsetu þó að fólki sé bannað að skrá sig á þeim stað sem það býr á og því er niðurstaðan vond, þ.e. fólk býr í þessum húsum en er bannað samkvæmt lögum að vera skráð í húsinu sem það býr í. Þessu vildi ég koma á framfæri, hæstv. forseti.