133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[12:32]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál er á góðri leið í gegnum þingið og að hluta til er í því mikið réttlætismál sem við í Samfylkingunni höfum lengi barist fyrir, þ.e. að umönnunargreiðslur séu samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslum. Við höfum fært fyrir því rök í mörg ár og flutt tillögur sem hafa verið felldar og nú loksins eru þessi réttlætisrök og sjónarmið viðurkennd sem við höfum sett fram og því ber að fagna.

Ég hefði viljað fá lengri tíma til að fjalla um málið í félagsmálanefnd almennt út af þeim annmörkum sem eru komnir á fæðingarorlofslöggjöfina en ég vildi ekki verða til þess að tefja málið í nefnd, svo mikla áherslu legg ég á framkvæmd þess að það ákvæði sem ég fyrr nefndi nái fram að ganga. En ég hlýt að treysta því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra við 1. umr. málsins og reyndar var aðeins komið inn á það í meðferðinni í félagsmálanefnd, að fæðingarorlofslöggjöfin yrði tekin til skoðunar og þeir gallar og annmarkar sem þar hafa komið fram, sérstaklega varðandi breytt viðmiðunartímabil sem mjög er gagnrýnt í samfélaginu af því að þetta skerðir verulega fæðingarorlofsgreiðslur. Vegna þess að verið er að taka einatt mið af þriggja ára gömlum tekjum hjá þeim sem fara í fæðingarorlofið þannig að greiðslurnar eru þegar upp er staðið engin 80% af launum eins og lögin kveða á um, heldur er þetta komið niður í 70%, sem um var getið í nefndarálitinu fyrir þremur árum þegar þessu viðmiðunartímabili var breytt. Það hefur allt gengið eftir sem við höfum sagt í því efni og því er nauðsynlegt að taka þessa löggjöf til endurskoðunar og eins það ákvæði sem ekki var tekið til skoðunar, sem þó hafði verið lofað fyrir 2–3 árum og snertir rétt öryrkja sem fara í fæðingarorlof, þ.e. að lífeyrisgreiðslur þeirra skerðist ekki. Ég treysti því að málið verði tekið til skoðunar. Það var full ástæða til að setja það í nefndarálitið sem framsögumaður nefndarinnar mælti fyrir, með leyfi forseta:

„Nefndin álítur að gætt hafi tregðu hjá fjárveitingavaldinu við að viðurkenna aukin umsvif fæðingarorlofssjóðs og mælist til þess að við næstu fjárlagagerð verði tekið meira tillit til raunverulegs kostnaðar Vinnumálastofnunar af rekstri sjóðsins.“

Það er ástæða til að hrósa formanni nefndarinnar fyrir að setja þessa gagnrýni í nefndarálit meiri hlutans en þetta er sannleikanum samkvæmt sem hér er sagt. Hitt er annað mál að í frumvarpinu er verið að flytja með formlegum hætti framkvæmdina á fæðingarorlofi frá Tryggingastofnun og til Vinnumálastofnunar, sem ég er ekki alsátt við og hefði viljað ræða frekar og maður heyrir það raunverulega á fulltrúum Tryggingastofnunar að þeir eru ekki alls kostar sáttir við þá breytingu. Ég held að tilgangurinn hafi verið fyrst og fremst sá að flytja þessa starfsemi út á land, til Hvammstanga, ef ég skil málið rétt. Þar munu níu starfsmenn fá vinnu við það verkefni úti á landi. Það er sjónarmið út af fyrir sig og auðvitað er það jákvætt og ég styð það ef hægt er að flytja verkefni út á land en það má ekki verða á kostnað framkvæmdarinnar og verkefnisins sjálfs sem ég held að hafi verið mjög vel fyrir séð í Tryggingastofnun ríkisins og ég hef ekki heyrt nein sannfærandi rök fyrir því að flytja þetta yfir á Vinnumálastofnun sem er yfirhlaðin verkefnum.

Því hefur oft verið haldið fram að um sé að ræða vinnumarkaðstengt mál og það sé ástæðan fyrir flutningi til Vinnumálastofnunar. Ég hygg að það sé fyrst og fremst það að fjölga störfum úti á landi frekar en hitt að þetta sé vinnumarkaðstengt málefni og þess vegna eigi það heima í Vinnumálastofnun því að mörg verkefni sem eru á sviði almannatrygginga og félagsmálaráðuneytisins eru vinnumarkaðstengd verkefni sem Tryggingastofnun hefur.

Ég sé ekki ástæðu, forseti, til að ræða þetta mál frekar. Ég gerði það við 1. umr. en fagna mjög að við séum að sjá núna í höfn að umönnunargreiðslur séu viðurkenndar samhliða fæðingarorlofi. Þetta er viðbótarkostnaður sem fólk lendir í sem þarf að sjá um fatlað barn og það hefur verið viðurkennt í mörg ár eða í langan tíma, slíkar umönnunargreiðslur. Ef ég man rétt voru þær settar í tíð minni sem félagsmálaráðherra. Þetta eru greiðslur í fimm flokkum eftir umönnunarþyngd og fötlun barnsins. Greiðslurnar hafa komið mörgum mjög til góða og er mikið réttlætismál og réttlætismál líka viðurkenna að hægt sé að greiða þær samhliða fæðingarorlofsgreiðslum sem eru eðlisólíkar greiðslur.