133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[12:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að einmitt með tækninni á að vera ástæðulaust að byggja upp svona þjónustustörf í einhverjum einum, stórum, miðlægum kjarna. Það er þá mikið keppikefli einmitt að fjarskiptatæknin eflist, gagnaflutningakerfið eflist út um land þannig að slík störf geti verið unnin sem víðast.

Það er eitt svona í lokin. Ég vil að það verði hugað að því að með þessu sé ekki verið að keyra launin niður. Að menn séu ekki að flytja störf út á land til þess að því fólki sem þar ræðst til starfa séu greidd lægri laun en fólki í hliðstæðum störfum áður inni í miðlægri stofnun í Reykjavík.

Ég vil bara vara við þessu því ég upplifði sterka tilhneigingu í þessa veruna. Fólk sem fær störf úti á landi og fagnar því, hvort sem það er á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða á öðrum stöðum, þá er það mikilvægt að launin haldist hin sömu, þ.e. að ekki sé verið að fara með störf út á land til að lækka launakostnaðinn. Ég er ekkert að segja að það sé í þessu tilviki. Þetta eru bara mín varnaðarorð.

En það er sjálfsagt að fagna því að fundinn sé farvegur fyrir verkefnaflutning út á land eins og hér er verið að leggja til í nefndarálitinu og ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvað áherslur í þeim efnum varðar.