133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í reynd hefur umfjöllun um Ríkisútvarpið verið skotið á frest. Stjórnarandstaðan féllst á að takmarka 2. umr. um RÚV að því tilskildu að umdeilt frumvarp ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu stofnunarinnar yrði ekki að lögum á þessu ári.

Enn er 3. umr. eftir, þ.e. ef af henni verður. Við þekkjum öll þann yfirlýsta ásetning ríkisstjórnarinnar að ljúka þessu máli hið allra fyrsta, og hefur hæstv. forsætisráðherra nefnt ákveðnar dagsetningar í því augnamiði.

Hins vegar er því ekki að leyna að nú hefur opnast á ný sá möguleiki að ríkisstjórnin sjái sig um hönd. Það vekur athygli að heyra formann Framsóknarflokksins lýsa því yfir í fjölmiðlum að hann hefði viljað að Ríkisútvarpið hefði orðið að hlutafélagi fyrir áramót.

Fylgispekt Framsóknarflokksins við einkavæðingaráráttu íhaldsins og hvernig hann lyppast niður í hverju málinu á fætur öðru, svíkur hugsjónir sínar (Forseti hringir.) og svíkur kjósendur sína, hlýtur að verða kjósendum í komandi alþingiskosningum (Forseti hringir.) umhugsunarefni. Við munum sjá til þess að þeir verði minntir á það. (Forseti hringir.)