133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[14:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu greiða atkvæði með þessu frumvarpi um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum þótt það í reynd sé hvorki fugl né fiskur. Við reyndum að gera bætur á þessu frumvarpi, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur þegar gert grein fyrir, en mér er óskiljanlegt hvers vegna hæstv. félagsmálaráðherra dregur taum atvinnurekenda í þeim mæli sem raun ber vitni í þessu frumvarpi. Launafólki eru aðeins tryggð lágmarksréttindi sem ríkisstjórnin telur sig geta komist upp með gagnvart EES-samningnum.

Hið furðulega er að hún undanskilur alla opinbera starfsmenn þessum réttindum og færir ekki nokkur einustu rök fyrir þeirri afstöðu sinni. Á hinn bóginn hafa menn sýnt fram á með rökum að þessi lög ættu að ná til alls vinnumarkaðarins.