133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:24]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nýverið kom út merkt sagnfræðirit eftir Guðna Th. Jóhannesson sem heitir „Óvinir ríkisins“. Á hádegisfundi á miðvikudaginn var, þar sem þessi bók var m.a. til umfjöllunar og hleranir sem hún varpar ljósi á, var spurt spurningarinnar: „Ógnuðu þeir öryggi ríkisins?“ Sagnfræðingurinn og höfundur bókarinnar svaraði spurningunni þannig: „Það var aldrei nein ógn til staðar. Þeir voru ekki til sem skipulagður hópur en öryggi ríkisins er auðvitað matskennt fyrirbæri.“

Ég held að það blandist engum hugur um að það var allt of langt seilst í matinu á öryggi ríkisins á umliðnum áratugum í þeim hlerunum og því eftirliti sem haft var með íslenskum ríkisborgurum hér á landi undir því yfirskini að þeir ógnuðu öryggi ríkisins. Þeir sem voru hleraðir voru fjölskrúðug flóra einstaklinga sem átti það sammerkt að vera pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins á þingi — á þingi eins og ég segi eða utan þess — því að það alvarlega við þetta mál er m.a. það að líklega hafa símar 8–10 þingmanna verið hleraðir á meðan þeir sátu á Alþingi. Í heildina er varpað ljósi á það í þessari bók að símar 33 einstaklinga hafi verið hleraðir. Nokkrir voru verkalýðsforingjar, aðrir voru pólitískir áhugamenn. Tilefnin eru mjög mismunandi en sum tilefnin eru mjög fáfengileg, eins og t.d. þegar heimilaðar voru hleranir á síma Hannibals Valdimarssonar, forseta Alþýðusambands Íslands og forustumanns í stjórnarandstöðu á þingi, í tengslum við útfærslu landhelginnar 1961. Og í tengslum við það mál, útfærslu landhelginnar, voru 15 símar hleraðir rétt eins og menn byggjust við að það yrði einhver bylting í tilefni af því.

Það virðist sem ráðamenn hafi misst allt taumhald og glatað virðingu fyrir leikreglum lýðræðisins og friðhelgi einkalífs. Mér sýnist, þegar maður skoðar þessi mál, að það sé eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki litið svo á að hann hefði tímabundið umboð frá kjósendum þegar hann var í ríkisstjórn heldur lægi í sjálfum Sjálfstæðisflokknum formbundið eða stofnanabundið vald vegna þess hversu oft hann átti aðild að ríkisstjórn og hann hafi í raun misbeitt ríkisvaldinu og vegið að æru og orðspori þeirra sem urðu fyrir hlerunum. Þetta er svartur blettur á sögu þjóðarinnar, virðulegur forseti, sem verður að upplýsa. Það verður að leiða sannleikann í ljós í þessum málum til að hægt sé að loka þessum kafla í sögu þjóðarinnar.

Þingið hefur þegar stigið skref í þessa átt með þingsályktun sem samþykkt var síðastliðið vor en það er ekki nóg að gert. Sú tillaga laut að skoðun gagna og verkefnið var að ákveða um frjálsan aðgang fræðimanna að þessum gögnum. Það er auðvitað mikilvægt. En það liggja ekki alltaf fyrir skrifleg gögn, samanber það að mikilvægum spjaldskrám lögreglu var eytt í ársbyrjun 1976. Þau voru sett í götótta olíutunnu og kveikt í þeim. Fyrrverandi embættismenn, lögreglumenn, símamenn og fleiri búa yfir ýmsum upplýsingum sem þarf að kalla fram og það gerist þá og því aðeins að þeir fái fullvissu um að það sé ekki í bága við trúnaðareiða þeirra að gefa þessar upplýsingar. Það kom m.a. fram hjá höfundi bókarinnar að hann hefði mætt því viðmóti hjá þessum fyrrverandi embættismönnum, lögreglumönnum og símamönnum að þeir væru vandir að virðingu sinni og vildu ekki tala um þessi mál nema þeir væru vissir um að það væri ekki í bága við trúnaðareiða þeirra.

Ég vil að Alþingi gangi hreint til verks og skipi rannsóknarnefnd í þessu máli og ég ætlaði raunar að spyrja forsætisráðherra hér hvort hann væri ekki tilbúinn að leggjast á þá sveif. Það var hins vegar eitthvað sem réði því að ég fékk staðgengil dómsmálaráðherra til andsvara í þessari umræðu, þó að ég hafi í sjálfu sér ekkert sérstakt við dómsmálaráðherra að tala í þessu máli, en ég spyr þá þann ráðherra sem í boði er, staðgengil dómsmálaráðherra, hvort hann sé tilbúinn til þess og þá Sjálfstæðisflokkurinn, og ég held að það sé líka rétt að aðrir flokkar svari því hvort þeir séu tilbúnir að styðja drög að þingsályktun í þessa veru, sem ég hef þegar sent á formenn allra flokka og þingflokksformenn og menn sýni þannig og sanni að þeir vilji gera hreint fyrir sínum dyrum. Það hefur verið talað um að það hafi verið stjórnlynd forusta í Sjálfstæðisflokknum, nú er ný forusta og ég tel mikilvægt að hún sýni og sanni fyrir þjóðinni að hún sé tilbúin til að skoða þessi mál í einlægni og heiðarleika og velta við öllum steinum og menn hafi þá ekkert að óttast í málinu.