133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:50]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hafa satt að segja farið fram mjög athyglisverðar umræður sem varpað hafa nokkru ljósi á þetta mál.

Ég get eins og hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir lýst yfir furðu minni á svari hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni þar sem hann valdi þá leið að nefna til einstaka forustumenn Framsóknarflokksins í gegnum tíðina. Það átti væntanlega að sýna fram á að Sjálfstæðisflokkurinn sæti ekki einn í þessari súpu og að einhverjir fleiri væru meðvirkir í málinu.

Ég nefndi enga sjálfstæðismenn á nafn. Ég talaði ekki um neina sérstaka ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ég talaði ekki um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Ég sagði hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið burðarflokkur í ríkisvaldinu á Íslandi á eftirstríðsárunum og slíkur burðarflokkur hafi greinilega litið svo á að hann væri ekki bara með tímabundið umboð frá kjósendum heldur lægi eitthvert sérstakt vald í stöðu flokksins, stofnanavald sem gerði honum kleift að misbeita ríkisvaldinu eins og ég tel færðar sönnur á að hann hafi gert.

Til sögunnar hafa verið nefndir flokkar í öðrum löndum t.d. norski Verkamannaflokkurinn. Það var burðarflokkur í ríkisvaldinu í Noregi og það kom m.a. fram í norsku nefndinni, sem skipuð var og jafnaðarmenn í Noregi voru ekkert hræddir við að yrði sett á laggirnar, að sá flokkur hafði notað í pólitískum tilgangi þær upplýsingar sem hann komst yfir.

Ég kalla ekki eftir því að hér verið skrifuð einhver ríkissaga. Ég kalla ekki eftir því að við fellum dóma í málinu á þessu stigi. Ég kalla eftir því að við rannsökum þetta, veltum upp hverjum steini og athugum hvort eftirlitið hafi verið misnotað í pólitískum tilgangi. Þá og því aðeins getum við fengið niðurstöðu í því, að við fáum slíka rannsóknarnefnd.

Ég skil málið þannig að framsóknarmenn séu tilbúnir að skoða þetta. Ég mun ganga eftir því í dag og á morgun og skoða hvernig landið liggur. Ég er tilbúin að bíða með tillöguna ef um hana næst sátt og samstaða (Forseti hringir.) en að öðrum kosti mun ég að sjálfsögðu flytja tillöguna hér, væntanlega sem fulltrúi stjórnarandstöðunnar.