133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:52]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fannst ræða mín undarleg en undarlegri var þó ræða hans. Hann virðist ekki hafa neinar áhyggjur af því sem gerist í kringum okkur, virðist ekki telja að ríkið eða að öryggi ríkisins þurfi að verja á einn eða neinn hátt á tímum þar sem ekki er allt ljóst um það hvernig mál eru að þróast. (Gripið fram í.)

Undarlegra er að það skuli koma illa við menn að ég nefni til sögunnar menn sem hafa komið að því að vinna að þessum málum og segja að ég sé að klína einhverju á þá. Ég var að hrósa þessum mönnum. Ég tel að það hafi verið þessum mönnum til hróss að koma að þessum málum. Ég held að Hermann Jónasson, og hef sagt það áður, sé einn af vanmetnari forsætisráðherrum síðustu aldar. Það sem ég sagði held ég að sé honum til hróss og því sem hann gerði, reyndar í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talar um að þetta séu allt saman pólitískir andstæðingar sjálfstæðismanna. Voru þeir ekki pólitískir andstæðingar alþýðuflokksmanna á þessum tíma? Voru þeir ekki pólitískir andstæðingar framsóknarmanna líka? Eru þetta bara sérvaldir andstæðingar sem um er að ræða? Það er einkennileg umræða sem fer fram um þetta. Það fer ekkert á milli mála að menn eru að reyna að búa til einhverja ríkissögu með skipun einhverrar nefndar.

Það er ekkert að óttast, það get ég sagt ykkur, í þessu. Það er ekkert sem þarf sérstaklega að réttlæta eða verja. Staðan hér er einfaldlega ekki eins og hún hefur verið í sumum nágrannalöndum okkar. Við skulum setja upplýsingarnar á borðið. Við skulum gera það í gegnum nefnd Páls Hreinssonar og láta rannsaka hlutina. En við skulum láta fræðimennina um að rannsaka málið. Við skulum ekki gera það í gegnum okkar eigin pólitísku gleraugu. Við skulum láta fræðimennina um þetta, til þess eru þeir best færir.