133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna.

[14:58]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

(Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Að undanförnu hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ítarlega vikið að og lagt út af orðum mínum hér á hinu háa Alþingi. Nú síðast eru þeir líka farnir að leggja út af orðum mínum í fjölmiðlum. (ÖS: Þú ert að …) Þetta er óvæntur heiður fyrir mig sem nýjan þingmann og að öllu leyti óverðskuldaður. (ÁRJ: Halldór Blöndal …) Að þessu sinni vilja hv. þingmenn ræða orð mín frá því í Morgunvakt Ríkisútvarpsins í morgun. Þar vék ég að því að Framsóknarflokkurinn hefði einn flokka viljað halda áfram þingstörfum næstu tvær vikur og ljúka umræðu um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið.

Aðrir flokkar höfðu hins vegar náð samkomulagi um að ljúka þingstörfum til að hv. þingmenn — og ég nefndi þar hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Steingrím Jóhann Sigfússon — gætu komist í skemmtiferð á vegum Alþingis, eins og ég tók til orða. Nú er það upplýst að hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir munu ekki ætla að fara í þessa ferð og ég biðst velvirðingar á að hafa nefnt þær ranglega í þessu sambandi.

Til skýringar er rétt að taka fram að þetta er ferð á vegum utanríkismálanefndar Alþingis til Eystrasaltsríkjanna og ég tel í sjálfu sér óþarfa fyrir hv. þingmenn að fyrtast við þó ég hafi notað orðið skemmtiferð. Ég tel engan vafa á því að þessi ferð verði hv. þingmönnum og Alþingi til gagns (MÁ: Gagn af skemmtiferð?) og þó að ferðin verði til gagns er alveg ábyggilegt að ferð þar sem hv. þingmenn Halldór Blöndal og Steingrímur J. Sigfússon eru með í för verður skemmtileg, virðulegi forseti.