133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[16:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og ræðumennirnir á undan mér, hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fagna því að frumvarp þetta er komið fram og góð samstaða hefur tekist um að brjóta í blað og setja fyrstu, almennu löggjöfina um þetta viðfangsefni, fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, hvað varðar upplýsingaskyldu um þau mál og fleira sem frumvarpið inniheldur.

Að mínu mati er einn megintilgangur þessa frumvarps að fyrirbyggja tortryggni, bæta andrúmsloftið í samskiptum stjórnmálaheimsins og þjóðarinnar þannig að ekki þurfi að vera neikvæð umræða og tortryggni, að mestu vonandi eða jafnvel að öllu leyti tilefnislaus, um að fjármálalegt afl geti haft óæskileg áhrif á stjórnmálin á bak við tjöldin.

Að mínu mati er verið að reisa hér fyrir fram skorður við því sem aðrar þjóðir hafa flestar hverjar fyrir löngu gert, að fjársterkir aðilar geti gert tilraunir til og jafnvel náð því að kaupa sér völd og áhrif með því að veita fjármuni til stjórnmálamanna eða stjórnmálasamtaka gegn greiða á móti. Í ljósi þess mikla ríkidæmis sem víða er orðið að finna og þess að miklir hagsmunir geta stundum verið í húfi þegar einstaka ákvarðanir í stjórnmálum eru teknar þá er öllum fyrir bestu að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann og grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana af þessu tagi. Ég hygg að einmitt þess vegna sé mikilvægt að þetta frumvarp reynir að taka á málinu heildstætt, tekur til beggja stjórnsýslustiga, tekur til starfsemi stjórnmálasamtaka í heild, til stjórnmálamanna sem einstaklinga og frambjóðenda, t.d. í prófkjörum.

Í raun er miklu ríkari ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar einstakir stjórnmálamenn, einstaklingar safna fjármunum til sinnar persónulegu stjórnmálabaráttu eða prófkjörs en til að hafa áhyggjur af starfsemi stjórnmálasamtaka á landsvísu. Sama gildir í raun um sveitarstjórnarmál. Þar er návígið miklu meira og minna innbyggt aðhald í gegnum starfsemina sem slíka en þegar í hlut eiga stjórnmálaflokkar á landsvísu, með sitt félagslega og lýðræðislega aðhald og þá miklu hagsmuni sem í húfi eru.

Ég tel að þær takmarkanir sem hér eru settar á fjárheimildir einstaklinga og lögaðila til að veita fjárframlög til stjórnmálastarfsemi séu í öllum aðalatriðum eðlilegar og viðmiðunarmörkin, þ.e. upphæðirnar ásættanlegar. Auðvitað má lengi ræða um hvað sé hóflegt í þessum efnum, hvort hámarksframlög eigi að vera 300 þús. kr. á ári eða eitthvað meira eða minna. En hér er farin sú leið að setja skýr mörk og jafnframt farin leið upplýsingaskyldu og gagnsæis þannig að öll framlög frá lögaðilum verða hér eftir opinber. Það held ég að sé í raun gott fyrir báða aðila. Nú velta menn því sjálfsagt fyrir sér hvort þetta muni leiða til þess að fyrirtæki muni almennt hverfa frá stuðningi við stjórnmálaflokkana. Það verður auðvitað að koma í ljós.

En skyldu ekki mörg fyrirtæki með stolti sýna að þau leggi þessari bráðnauðsynlegu undirstöðustarfsemi í lýðræðisríkinu lið og geri þar öllum jafnhátt undir höfði og þyki frekar af því sæmd en hitt að slíkt komi fram opinberlega.

Það er rétt að taka fram að þetta mál á langan aðdraganda í þeim skilningi að það hefur verið rætt á Íslandi í áraraðir og áratugi hvort ekki væri nauðsynlegt að setja lög um þetta. Ég hef hreyft þessu máli ítrekað á umliðnum árum í ræðu og riti.

Hér var nefnt frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er hárrétt, að hún hefur verið iðin við það, eins og mörg önnur mál, að halda þessu á lofti og það er vel. En það hafa vissulega fleiri gert. Ég vil líka nefna í þessu samhengi að að sjálfsögðu hefur það verið hverjum og einum frjálst og opið að setja reglur og fara fram á grundvelli þeirrar hugsunar sem hér er höfð að leiðarljósi, að um þetta skuli gilda skýrar reglur, ákveðin takmörk og flokkar skuli upplýsa um sín mál. Það hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð gert frá upphafi.

Við höfum frá upphafi haft ársreikninga okkar opna. Við höfum látið löggilta endurskoðendur endurskoða þá og leggja starfsheiður sinn við að þar sé allt rétt upp gefið. Við höfum sett okkur reglur frá byrjun um fjármálaleg samskipti við fyrirtæki og haft ákveðið hámark á upphæðum sem við tækjum við án þess að gefandinn væri nafngreindur. Við höfum gengið enn lengra en þetta. Á heimasíðu okkar flokks geta menn fundið, ekki bara ársreikningana heldur líka upplýsingar um persónulegan fjárhag okkar þingmanna og maka okkar, eignir okkar og möguleg hagsmunatengsl.

Veruleikinn er sá, frú forseti, að fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð boðar þetta frumvarp ákaflega litlar breytingar. Við höfum í öllum aðalatriðum þegar gert þær ráðstafanir sem frumvarpið mun gera að almennri reglu. Ég hvet menn til þess, ef þeir hafa áhuga á, að fara inn á heimasíðu okkar, vg.is og skoða þær upplýsingar sem þar er að finna. Það er að sjálfsögðu öllum frjálst og velkomið.

Ég vil í þessu samhengi þakka fulltrúa okkar í nefndinni, sem hér hefur unnið þarft starf, Kristínu Halldórsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fyrrverandi alþingismanni, fyrir hennar góða starf fyrir okkar hönd í nefndarstarfinu.

Að lokum vil ég segja að auðvitað er heilmikil vinna fram undan sem snýr að því að móta reglur í nánari atriðum en lögin mæla fyrir um framkvæmd þessa máls, m.a. um samskiptin við Ríkisendurskoðun. Ég tel þarft að flokkarnir eigi áfram með sér gott samstarf um framhaldið og jafnvel verði áfram starfshópur við lýði með fulltrúum flokkanna sem geta eftir atvikum unnið með Ríkisendurskoðun og öðrum aðilum sem málið varðar. Mér sýnist ljóst að flokkarnir sem slíkir, sem stofnanir, þurfi að vinna talsverða undirbúningsvinnu, sérstaklega hvað það varðar að tengja kjördæmisráð og grunneiningar í starfi flokka með nánari hætti við móðurskipin þannig að þessar reglur nái yfir alla starfsemina eins og þeim er ætlað.

Varðandi einstök efnisatriði þá held ég að ég sleppi því að mestu að nefna þau. Hér er ýmislegt sem mætti velta vöngum yfir eða gera athugasemdir við. Ég vil þó aðeins nefna 5. gr. og það sem snýr að sveitarfélögunum sem er vel að merkja nauðsynlegt að hafa þarna með. Þessi löggjöf á að sjálfsögðu að taka yfir stjórnmálastarfsemi í heild. Það er ekki síður ástæða til að hún taki yfir stjórnmálastarf á sveitarstjórnarstigi en á landsvísu. Það má þó velta því fyrir sér hvort ástæða væri til að líta á ákvæði 5. gr., m.a. með hliðsjón af því að reglunni er ætlað að taka til sveitarfélaga allt niður í 500 íbúa.

Það kann að vera, eins og mér hefur verið bent á, að það geti verkað fullmiðstýringarlegt, að hér sé kannski með óþarflega nákvæmum hætti sagt fyrir um hvernig sveitarfélögin skuli standa að málum. Ef til vill þyrfti að vera meiri sveigjanleiki, t.d. vegna gríðarlega mismunandi stærðar sveitarfélaga. En það og ýmislegt annað af svipuðum toga má að sjálfsögðu skoða betur eftir atvikum að því marki sem þingnefnd hefur tíma til. En það má líka endurskoða komi í ljós að lögin séu einhverjum annmörkum háð hvað þetta eða annað snertir.

Það leiðir mig að því síðasta, frú forseti, sem ég ætla að nefna. Það er ósköp einfaldlega að í ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir um að þessi lög skuli koma til endurskoðunar eigi síðar en 30. júní 2010. Það er hugsað þannig að endurskoðunarstarfið fari í gang í beinu framhaldi af því að lögin hafa gilt um einar kosningar á báðum stjórnsýslustigum, þ.e. alþingiskosningarnar sem í hönd fara í maímánuði næstkomandi og sveitarstjórnarkosningar í maí árið 2010.

Þetta held ég að sé hyggilega ráðið. Það ber að sjálfsögðu ekki að skilja sem svo að komi í ljós, t.d. við útfærslu reglna og framkvæmdina á fyrsta eða öðru ári að eitthvað megi betur fara að þá megi ekki breyta lögunum fyrr ef ástæða verður til. Því held ég að menn eigi að drífa þetta mál fram og gera að lögum, hefja tafarlaust undirbúning að framkvæmd þeirra og líta á það sem mikilvægan og merkan áfanga í þróun okkar löggjafar og okkar lýðræðis- og réttarríkis að þessi mál fari í svipaðan farveg og svipaðan umbúnað hér á landi og gert hefur verið í nánast öllum vestrænum lýðræðis- og þingræðisríkjum sem við berum okkur saman við þótt hæstv. forsætisráðherra hafi að vísu einhvers staðar fundið tvö Evrópuríki, ef ég heyrði rétt, sem hann telur að hafi ekki sett sér slík lög.