133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[16:23]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég lít svo til að hér séum við að setja merka löggjöf. Við erum að marka stjórnmálastarfseminni í landinu ákveðinn farveg, ákveðnar samskiptareglur sem allir fari eftir og allir þurfi að undirgangast. Ég tel að með þessari skipan mála verði starfsemi stjórnmálaflokkanna almennt aðgengilegri fyrir alla landsmenn sem fái betri sýn á starfsemi flokkanna, bæði hvað varðar fjáröflun þeirra, hvaðan þeir hljóta styrki, sem og sundurgreiningu á því hvaða upphæðir koma frá félagsmönnum sem félagsgjöld, hvaða upphæðir frá einstaklingum sem styrkir sem og það að frá lögaðilum liggi fyrir hverjir þeirra styrki flokkana, styrki þar af leiðandi stjórnmálastarfsemi í landinu og lýðræði einnig. Það er vissulega mikilvægt að efla lýðræðisskipulag þar sem við öll göngumst undir ákveðnar skyldur að þessu leyti.

Við í Frjálslynda flokknum höfum frá upphafi okkar starfs verið með það sem við höfum kallað opið bókhald, bókhald sem er endurskoðað af endurskoðanda. Hann tekur út og stimplar eða skrifar upp á að eðlilega sé fært og eðlilegar reikningsskilavenjur viðhafðar sem og greiningar á tekjum, gjöldum, skuldum, eignum, framlögum o.s.frv. Við höfum sjálf sett okkur ákveðnar reglur til margra ára í því sambandi og höfum núna seinni árin miðað við það að allar upphæðir sem væru yfir 500 þús. til starfsemi stjórnmálaflokka væru gefnar upp og upplýst hver væri gefandinn eða styrkveitandinn.

Í starfsemi okkar höfum við einnig verið með hóp félagsmanna sem greitt hafa svokallað kjölfestugjald til flokksins. Þeir hafa auðvitað verið að stórum hluta burðarás við það að styrkja starfsemi okkar flokks ásamt almennum félagsgjöldum og framlögum frá einstaklingum.

Nú er verið að setja hér sameiginlegar reglur fyrir alla stjórnmálastarfsemina að þessu leyti varðandi upphæðir og frá hverjum þær koma, upplýsingaskyldu um slíkt. Ég tel að þetta plagg sem við erum að ræða, frumvarpið um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, sé þáttur í lýðræðisskipan okkar og verði til þess að hér eigi fólk að hafa betri yfirsýn yfir það hvernig stjórnmálaflokkarnir starfa almennt á landi hér og það liggi þá skýrar fyrir öllum. Það held ég að muni þá einnig draga úr innbyrðis deilum um það að stjórnmálaflokkar hafi misjafnan aðgang að fjármagni og einnig það að ekki sé ákveðinn hópur fyrirtækja eða lögaðila sem styrki einn stjórnmálaflokk frekar en annan. Þetta held ég að sé eðlilegt og nauðsynlegt í nútímaþjóðfélagi. Einnig hefur verið bent á að á seinni árum hafa risið upp hér á landi fyrirtæki og einstaklingar sem eru með það mikið fjármagn að ef þeir vildu beita því til að leggja einum stjórnmálaflokki lið gætu þeir orðið mjög ráðandi með fjárstyrk sínum. Hér eru því settar verulegar skorður og það tel ég að sé til bóta, hæstv. forseti.

Auðvitað hefur margt borið á góma í því nefndarstarfi sem sett var á fót af þáverandi forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni í júlí 2005. Það er ekki eins og að öll þessi umræða um starfsemi stjórnmálaflokkanna hafi legið í einhverju þagnargildi. Það hefur líka verið vilji til að setja slíkri starfsemi einhverjar skorður með lögum og reglum. Vissulega hafa þeir sem í nefndinni störfuðu sem og við sem erum í forustu stjórnmálaflokkanna reynt að gæta ákveðins trúnaðar um það starf sem hefur verið unnið. Það er eðlilegt þegar menn vinna svona starf vegna þess að á einhverjum tímapunkti þurfa auðvitað allir að gefa eftir til að lenda svona máli. Það hafa ekki allir sömu skoðun á þessu máli, hvernig með það eigi að fara.

Ég hygg að nefndin sem var sett í þetta verk hafi unnið ágætt starf og ég þakka fulltrúa okkar frá Frjálslynda flokknum, Eyjólfi Ármannssyni lögmanni, sérstaklega fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt í þetta fyrir hönd okkar í Frjálslynda flokknum. Ég tel að nefndarmenn allir sem í nefndinni störfuðu hafi unnið gott verk og haft víðsýni að leiðarljósi við það að reyna að ná þessum málum saman þó að auðvitað hafi hverjum sýnst sitt þegar menn byrjuðu í þessu nefndarstarfi og allir þurft að víkja kannski eitthvað frá sínum stífustu skoðunum eða meiningum til að lenda þessu saman í þann farveg sem varð svo sá grunnur sem við formenn stjórnmálaflokkanna náðum að sameinast um til að svo mætti fara að inn í Alþingi kæmi til afgreiðslu heildstætt frumvarp um fjármál og starfsemi stjórnmálaflokka.

Þetta mál hefur verið kynnt í þjóðfélaginu og verið til umfjöllunar. Auðvitað sýnist sitt hverjum um það sem hér er lagt til en almennt vil ég segja sem mína skoðun að við erum með þessu lagafrumvarpi að efla lýðræðið og gera stjórnmálastarfsemina opnari fyrir fólki í þjóðfélaginu. Ég tel að þetta muni til framtíðar efla lýðræðisþróun í landinu og fagna því að við séum að ná saman um þetta mál. Það hefur einnig verið kynnt eins og ég gat um áður og hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu þannig að hér er ekki um að ræða mál sem dettur inn í þing þó að það komi reyndar seint til afgreiðslu sem ekki hefur verið til umræðu og menn hafa ekki getað kynnt sér. Það hefur verið til umfjöllunar, menn hafa vitað efni þess og öllum verið það ljóst í meginatriðum, a.m.k. á seinni stigum síðustu vikurnar, um hvað þetta frumvarp snerist og um hvað það mundi snúast.

Þegar slíkar reglur eru settar þurfum við samt ekki að reikna með því að við náum utan um nákvæmlega hvert einasta atriði í starfsemi stjórnmálaflokkanna. Hún er fjölþætt og fjölbreytt og það hefur verið reynt að skilgreina hvað teljast fjármunir í slíku sambandi. Síðan er dregin þessi regla með 300 þús. kr. sem markar hámark fjárframlaga og markar einnig það sem menn mega vera með í gjafir eða styrki, kaffisamsæti og aðra fundi sem oft er gefið til af ýmsum til þess að slíkir fundir megi fara fram sem og það að flokkarnir gefa út blöð. Þau eru oft héraðsbundin og hafa auðvitað verið fjármögnuð með því að aðilar hafa verið með styrktarlínur eða auglýsingar í slíkum blöðum. Það er eðlilegt að slíkt geti haldið áfram en því er samt sem áður settur hér ákveðinn rammi. Ramminn er sá að þar keyri ekki umfram eðlilegan viðmiðunarkostnað og Ríkisendurskoðun verður að skoða hvað flokkarnir hafa notað í slíka útgáfu á undanförnum árum og setja um það reglur þannig að það sé ekki leið sem menn noti þá til fjáröflunar umfram þær reglur sem hér er stefnt að. Ég hygg að vilji allra stjórnmálaflokkanna sé til þess að halda þessar reglur og halda þetta samkomulag sem væntanlega verður lögfest því það byggir mikið á því í framtíðinni að við sem störfum í stjórnmálaflokkunum höfum vilja til þess að láta þessa hluti ganga upp og aðlaga okkur reglum sem við þurfum e.t.v. að kunna að setja á komandi mánuðum og árum til að þessi mál fari í þann farveg sem menn vilja.

Ég vek hins vegar athygli á því að þegar við setjum þessi takmörk setjum við þeim framlögum sem einstaklingar og fyrirtæki hafa getað veitt stjórnmálaflokkum til starfsemi sinnar ákveðin takmörk. Þess vegna liggur í hlutarins eðli að þá komi eitthvað meiri fjármunir frá ríkissjóði til starfsemi stjórnmálaflokkanna enda er þar með einnig verið að gera ljóst hvaða fjármunir fara í þessa starfsemi og menn ættu almennt að vera hlynntir því að vita það.

Aldrei verður það hins vegar svo að við þurfum ekki eitthvað að lagfæra og við getum þurft að takast á við það á komandi árum. Þó að endurskoðunarákvæðið sé ekki hér fyrr en 2010 gætum við þurft að takast á við það að endurskoða einhverjar þeirra reglna og jafnvel laga sem við setjum okkur hér.

Það eru nokkur mál sem ég vil víkja að í lok ræðu minnar, hæstv. forseti, sem snúa að starfsemi stjórnmálaflokka og hafa mikil áhrif á það hvernig við notum fjármuni. Þar sem við erum að undirgangast það að setja okkur þessar takmarkanir sem hér verða væntanlega festar í lög og fáum síðan styrki úr ríkissjóði til starfsemi okkar ber okkur í stjórnmálaflokkunum að setja okkur sjálfum skynsamlegar reglur um það hvernig við nýtum slíka fjármuni. Í því sambandi vil ég sérstaklega víkja að auglýsingakostnaði. Mér finnst ekki mjög góður svipur á því að að settum þessum lögum þar sem ríkissjóður leggur meira til stjórnmálaflokka en áður notum við þá fjármuni í miklum mæli í afar dýrar auglýsingar í komandi alþingiskosningum svo að við tökum dæmi af því sem næst okkur er. Við höfum þá ábyrgð að nýta þá fjármuni sem okkur eru fengnir í hendur og vinna með þá þannig að þegnar í þjóðfélaginu geti ekki sagt: Jú, jú, þeir fengu hér nokkrar milljónir og þær fóru beint í leiknar sjónvarpsauglýsingar og hurfu þar. Mér finnst að við eigum að horfa svolítið til þess, hæstv. forseti, að við í stjórnmálaflokkunum sem erum þar í forustu setjumst nú saman og reynum að búa okkur til sameiginlegar reglur um það hvernig við viljum standa að þeim þætti málsins á komandi mánuðum, sérstaklega vikum kosningabaráttunnar rétt fyrir kjördag.

Ég vil einnig lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að það eigi að færa lok kosningabaráttu fjær kjördeginum en nú er, ef t.d. er kosið á laugardegi ljúki hinni formlegu kosningabaráttu flokkanna á miðvikudegi, þess vegna með einhverjum umræðuþætti sem þjóðin væntanlega öll getur hlustað á. Auðvitað lýkur samt ekki starfseminni sem slíkri. Menn halda áfram að vinna heimavinnuna sína, hringja í kjósendur o.s.frv. en hinni formlega auglýstu stjórnmálabaráttu gæti kannski lokið 2–3 dögum áður en kosið er.

Ég vil velta því hér upp, þótt það gerist kannski ekki fyrir þær alþingiskosningar sem fara í hönd, að skoða hvort við eigum að setja okkur einhverjar reglur um það að skoðanakannanir t.d. birtist ekki síðustu 2–3 dagana fyrir kosningar í stað þess að þær hrúgist inn nánast fjórar, fimm, sex á hverjum einasta degi á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Ég held að kjósandinn þurfi líka næði til að leggja mat á málflutning okkar og vega það og meta hvaða afstöðu hann tekur til atkvæðis síns, hvernig hann vill beita því þegar kemur að kjördegi.

Síðan vil ég nefna, hæstv. forseti, meðferð vafaatkvæða og úrskurð þeirra sem er vikið að í greinargerð nefndarinnar með frumvarpinu og einnig það sem ég hef kallað 17. aldar framkvæmd á því að greiða atkvæði utan kjörfundar þar sem liggur við að hverjum kjósanda sé ætlað að vera með sama fyrirkomulag á að koma atkvæðinu sínu á einhvern eða ferðast jafnvel með það sjálfur til að koma því í ákveðna kjördeild. Framkvæmdin er sú að það er kosið hjá sýslumönnum utan kjörfundar og ég held að með nútímatækni hljóti að vera hægt að koma því svo fyrir að atkvæði verði eftir þar og þaðan sé niðurstöðunni skilað eða hún flokkuð og talin þannig að hver og einn kjósandi þurfi ekki, jafnvel á síðustu klukkustundum síns mögulega tækifæris til að kjósa ef hann er utan heimasveitar sinnar, t.d. sjómenn sem eru í höfn víða á landinu án þess að vera í sinni heimasveit, að standa í sérstökum reddingum við að koma atkvæði sínu til skila. Mér finnst það vera landpóstafyrirkomulag að menn þurfi að ferðast með sitt eigið atkvæði í stað þess að eiga þann rétt að atkvæðið komist tryggilega til skila og niðurstaðan þar með. Það er meginniðurstaða kosningalaga að kjósandinn á að eiga þann rétt að atkvæði hans sé talið með og allur vafi talinn honum í hag um að hann sé að skila af sér atkvæði og koma vilja sínum á framfæri.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, og síðan það að lokum að við talningu í kjördeildum, þ.e. vegna kosningakerfis okkar um uppbótarþingmenn o.s.frv., þarf að athuga að ákveðnar kjördeildir séu ekki búnar að loka og afgreiða málin. Ef mjög litlu munar um það hvernig þingmenn falla á kjördæmi getur þurft að endurtelja vafaatkvæði og úrskurða á nýjan leik og jafnvel endurtelja allt saman ef munurinn er mjög lítill. Þetta finnst mér að við þurfum að skoða í flokkunum og setja okkur um þetta skynsamlegar reglur þannig að þegar falla atkvæði svo að litlu munar sé alveg óumdeilt að það sé skoðað upp á nýtt, endurtalið og allur vafi útilokaður sem framast má verða.