133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[16:49]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti við frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Svo sem kunnugt er hafa lög um endurgreiðslur á hluta kostnaðar vegna kvikmyndagerðar verið í gildi hér síðan árið 1999. Þeim var örlítið breytt árið 2000 vegna umsagnar EFTA. Óhætt er að segja að þetta ákvæði hafi laðað til sín mikla fjármuni, mikla tæknilega þekkingu, með því að erlendir kvikmyndaaðilar hafa komið hingað í vaxandi mæli til þess að framleiða, taka upp og gera kvikmyndir, stuttar eða langar, leiknar eða heimildamyndir og auglýsingamyndir.

Þetta er orðin vaxandi atvinnugrein og er talið að einungis á árinu 2005 hafi velta þessa iðnaðar verið um 3 milljarðar kr. Margfeldisáhrif af þessum iðnaði eru talin veruleg. Talið er að 1 króna lögð í kvikmyndaiðnaðinn skili 2,5 kr. í margfeldisáhrif. Þessu tengist alls lags þjónusta, störf fyrir tæknifólk, þjónustufólk, matsala, gisting og þar fram eftir götunum. Þar að auki er talið að um 900 manns hafi starfað við þennan iðnað árið 2005.

Nú var þetta ákvæði um það bil að renna út og samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að framlengja það til ársins 2011. Þá mun hv. Alþingi væntanlega taka málið til endurskoðunar að nýju.

Í framsöguræðu hæstv. iðnaðarráðherra velti hann því upp að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 12% í 14%. Það var meðal annars rökstutt með því að nú hafa Norðmenn viljað feta svipaðar slóðir. Iðnaðarnefnd hv. tók þeirri áskorun afar vel og leggur til — það er önnur meginbreytingin sem iðnaðarnefnd leggur til í sinni umfjöllun — að endurgreiðsluhlutfallið verði hækkað úr 12% í 14%.

Þá er önnur breyting sem nefndin leggur til sú að þeir sem hafa þegar sótt um endurgreiðslu geti, verði þessi lög samþykkt og farið með hlutfallið úr 12% í 14%, endurnýjað umsókn sína og notið góðs af 14% endurgreiðslu.

Svo sem vænta má ríkir full samstaða um þetta ágæta mál innan hv. iðnaðarnefndar og undir nefndarálitið rita allir viðstaddir nefndarmenn og áheyrnarfulltrúi tekur einnig undir þetta álit.