133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[16:58]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég var nú ekki staddur á fundi nefndarinnar þegar hún afgreiddi þetta mál út. En félagar mínir sem nefndir voru hér í framsöguræðu hv. formanns nefndarinnar voru þar og skrifuðu undir með fyrirvara.

Við 1. umr. málsins fjölluðum við um það hér og þá kom það fram að við teljum í sjálfu sér eðlilegt að staðfesta þessi kaup og að frumvarpið sem slíkt sé í samræmi við þá þörf sem myndast við það að ríkið verður einn eigandi að Landsvirkjun.

Þau orð sem hv. formaður nefndarinnar hafði um að verið væri að lögfesta samkomulagið sem gert var eru að því leyti til rétt að auðvitað er verið að lögfesta þær skuldbindingar sem í samkomulaginu eru. Ég tel reyndar ástæðu til að vekja athygli á því að ekki eigi að láta reyna á sumt í þessu samkomulagi því þeir fyrirvarar sem þar eru gerðir í því skyni að hafa opna möguleika til einhvers konar einkavæðingar Landsvirkjunar finnst mér ekki eigi að vera til nota fyrir stjórnvöld. Þeir hafa vakið hins vegar tortryggni á því sem hér er að gerast og vont er að menn skuli þurfa að vera með vangaveltur um að þeir sem eru við völd núna, ríkisstjórnin, séu með hugmyndir í farteskinu um að hleypa nýjum eignaraðilum inn í Landsvirkjun með einhverjum hætti eða selja hlut í henni. Það er mikið verk óunnið áður en möguleikar verða á slíkum tilfæringum. Þann fyrirvara vil ég gera að það er gjörsamlega óþolandi að menn velti því yfirleitt fyrir sér að selja hlut í Landsvirkjun á meðan ekki hefur verið gengið frá því hvernig þeim auðlindum sem Landsvirkjun hefur frá þjóðinni fengið til einkanota fyrir framleiðslu sína, bestu virkjanlegum auðlindum í landinu að mati þeirra sem um véluðu á sínum tíma, verður fyrirkomið til framtíðar. Að ræða yfirleitt um að til greina komi að selja einkaaðilum þær auðlindir finnst mér alls ekki ganga. Það er ekki hægt að bjóða upp á þann málflutning.

Við erum sammála því að leyst er nú úr þeim eignarhaldsvanda sem skapaðist vegna þess að tvö sveitarfélög í landinu áttu helminginn af þessu fyrirtæki sem hafði verið fengið í hendur að nýta þessar auðlindir. Það var afar óeðlilegt fyrirkomulag og uppi sitjum við eftir þennan gjörning með að þessi tvö sveitarfélög frá gríðarleg verðmæti til sín. Í sjálfu sér er ekkert við því að gera. Þau höfðu eignast þennan hlut. Hins vegar er ástæða til að velta því fyrir sér hvort þegar svona, það sem ég vil kalla, mistök verða frá hendi hins opinbera í samstarfi við svo stóran hlut af sveitarfélögum í landinu — Reykjavíkurborg er nú aldeilis stór hluti af sveitarfélögum og Akureyri. Þarna eiga tvö stærstu sveitarfélög landsins hlut að máli sem þýðir að íbúar í þessum sveitarfélögum fá mikil verðmæti í sínar hendur sem hafa orðið til vegna nýtingar á þessum auðlindum. — Ég tel því að ástæða hefði verið til þess að skoða stöðu annarra sveitarfélaga í samhengi við þetta. Það er að vísu verkefni sem ekki tilheyrir þessari gerð sem hér er um að ræða. En ég vil koma því á framfæri hér enn einu sinni að ég sé ástæðu til þess að nefna að það fólk sem býr á til dæmis Rarikssvæðinu ætti ekki síður rétt á því að eignast hlut í þeim verðmætum sem þar hafa upp sprottið vegna starfsemi Rariks heldur en það fólk sem býr á þeim svæðum sem hafa átt hlut að Landsvirkjun þennan tíma sem þetta samstarf hefur verið.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Við Samfylkingarmenn erum jákvæðir gagnvart þessu máli, þ.e. kaupunum, en gerum fyrirvara við þær hugmyndir sem hugsanlega gætu verið á bak við þá fyrirvara sem eru í 5. gr. samningsins sem til var vitnað um leiðréttingar kaupverðs.