133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:41]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú skal ég upplýsa hv. þingmann Steingrím J. Sigfússon um það að ég breytti úr rafmagni í gas í eldhúsinu á mínu heimili og það er ekki vegna þess að orkuverð á Suðurnesjum sé hátt heldur er einfaldlega betra að elda með gasi. Það er nú ástæðan fyrir því að veitingahús fara þessa leið.

Það hlýtur líka að vera fagnaðarefni að bændur skuli fara í virkjanagerð. Ætli það séu ekki einar 40 smávirkjanir í gangi? Það er ekki eingöngu vegna þess að þeir vilji ná í ódýrt rafmagn heldur er þetta tekjuauki, þetta eru tekjumöguleikar fyrir bændur og það er fagnaðarefni. Við höfum einmitt stuðlað að þessu að frumkvæði Finns Ingólfssonar þáverandi iðnaðarráðherra.

Ég vil líka árétta það að frumkvæðið að kaupum ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun kemur frá sveitarfélögunum. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að tala hér núna eins og R-listinn tengist þar hvergi. Þetta var að frumkvæði R-listans og hefði samist um verð þá hefði R-listinn keypt.

R-listinn vildi fá meira og R-listinn kvartar undan því, fulltrúar minni hlutans í borgarstjórn, að verðið hafi verið of lágt til borgarinnar og hvað felst í því? Af hverju trúa fulltrúar minni hlutans í borgarstjórn að það sé hægt að fá meira fyrir hlut borgarinnar í Landsvirkjun? Það er vegna þess að þeir hafa trú á því sem fyrirtækið er að gera. Og hvað er fyrirtækið að gera? Það er að fjárfesta m.a. fyrir austan, vegna þess að þeir sjá fram á að Landsvirkjun muni skila enn meiri hagnaði en hún gerir í dag. Að sjálfsögðu tekur í þegar fyrirtækið er að fjárfesta fyrir tugi milljarða og það er alveg samkvæmt áætlunum. Það gengur á eigið fé en er algjörlega innan þeirra marka sem fyrirtækið lagði upp með. Þannig er bisnissinn, það tekur í á meðan er verið að fjárfesta og svo byrjar gullkvörnin að rúlla — og í það vill nefnilega minni hlutinn í Reykjavík komast. Hann trúir á stóriðjuna.