133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[17:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get vísað að talsverðu leyti til ræðu sem ég flutti í næsta máli á undan þessu. Ég kaus að ræða þessi mál saman, enda hanga þau mjög saman, eru hluti af orkumálapakka ríkisstjórnarinnar og klúðrinu á því sviði eins og ég fór þar nokkuð rækilega fyrir.

Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni þegar menn sjá að sér, og þó í litlu sé er það auðvitað til mikilla bóta að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar hverfur frá því óráði að troða þessu máli í gegn eða reyna það núna fyrir jólaleyfi sem hefði orðið torsótt, satt best að segja, því að ekki hefði maður tekið því þegjandi ef átt hefði að halda áfram með málið, sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga sem iðnaðarnefnd fékk við skoðun málsins. Þær upplýsingar eru eðli málsins samkvæmt bundnar trúnaði vegna þess að þær fjalla um viðfangsefni sem Samkeppnisstofnun er með í höndunum en þær eru engu að síður þess eðlis og það sem hefur komið fram um það opinberlega og menn vita hnígur í þá átt að hér sé ekki staðið rétt að málum.

Efni breytingartillögunnar er í raun og veru það að fella út meginmálsgreinar frumvarpsins, þ.e. 2. og 3. mgr. 2. gr. og 2. og 3. mgr. 3. gr., og stendur þá í raun fátt eitt eftir annað en það að forræði fyrir eignarhlutum í orkufyrirtækjunum, eign ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða og Rarik, færist til fjármálaráðherra og það eru mörg gild rök fyrir því. Í raun og veru hefði átt að vera búið að ganga þannig frá málum fyrir lifandis löngu að eignarforræðið í opinberum fyrirtækjum væri almennt á einum stað í fjármálaráðuneytinu en ekki í viðkomandi fagráðuneytum og þar væri skilið á milli. Sömuleiðis hygg ég að úr því sem komið er, með stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins á árinu 2006, sé eðlilegt að standa þannig að málum eins og kveðið er á um í 4. gr. að skuldbindingarnar þar skuli miðast við 1. janúar 2006. Ég geri ekki athugasemdir við það ákvæði.

Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á því að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. iðnaðarráðherra standa frammi fyrir því, sem er nú dapurt fyrir þann ráðherra undir hvern heyra samkeppnislög, að hafa lagt fyrir þingið frumvörp sem ganga ekki upp, sem fá falleinkunn þegar fagaðilar á sviði samkeppnismála skoða þau. Auðvitað er ríkisstjórnin að viðurkenna þetta hér, eða meiri hlutinn með breytingartillögum sínum. Það er náttúrlega heldur dapurlegt, sérstaklega fyrir þetta ráðuneyti af öllum ráðuneytum og ráðherra þess, að standa frammi fyrir því að þessi málatilbúnaður fær falleinkunn.

Ég vil svo aðeins segja nokkur orð um skipulag og þróun raforkumálanna hjá okkur og vísa þar til viðbótar til þess sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Varðandi Orkubú Vestfjarða, sem sveitarfélög á Vestfjörðum voru þvinguð með tárin í augunum til að láta frá sér upp í skuldir til þess að þau gætu lengt í hengingarólinni og rekið sig í nokkur ár í viðbót á þeirri eign sinni. Var auðvitað grátlegt að sjá þennan landshluta, fjórðung sem átt hefur í vök að verjast, þurfa að láta af hendi fyrirtæki sem hefði með réttu átt að geta orðið aflgjafi og mótor í uppbyggingu á ýmsum sviðum og hafði og hefur umtalsverða burði. Má nefna sem hliðstæðu Hitaveitu Suðurnesja sem hefur verið drifkraftur í ýmissi uppbyggingu og er gullmoli í höndum sveitarfélaganna þar, sem þau hafa sem betur fer ekki þurft að láta frá sér. Auðvitað var það grátlegt að sjá hvernig ríkisstjórnin kvaldi sveitarfélögin á Vestfjörðum og gerði ekkert til að rétta afkomu þeirra sem höfðu búið við tekjusamdrátt og fólksfækkun en neyddi þau til að láta af hendi þessa verðmætustu eign sína. Og hvað á að gera með hana núna? Nú átti að láta hana renna inn í Landsvirkjun til að rétta af efnahagsreikninginn þar vegna hallans af stóriðjustefnunni.

Varðandi Rafmagnsveitur ríkisins þá er sú stofnun náttúrlega fyrst og fremst þjónustufyrirtæki og dreifingaraðili raforku á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Og framleiða líka.) Þær framleiða vissulega nokkurt rafmagn en eru þó að verulegu leyti kaupandi á rafmagni í heildsölu frá Landsvirkjun. Þess vegna væri eðlilegt að horfa til landsbyggðarinnar um endurskipulagningu þessara mála úr því að ríkið er komið með þetta allt á sínar hendur hvort sem er, en hvað dettur mönnum í hug? Að sameina þetta inn í Landsvirkjun á Háaleitisbrautinni. Var ekki einhvern tíma talað um að flytja Rarik norður til Akureyrar? Var ekki einhvern tíma iðnaðarráðherra sem ætlaði að slá sér upp í höfuðstað síns kjördæmis og bjóða hinum Rarik? Hvað varð um það? (Gripið fram í: Það er búið að senda hana í útlegð.) Nú er sá hæstv. ráðherra bara í löngum ferðalögum erlendis, og að því er virðist til að greiða fyrir þingstörfum er hæstv. iðnaðarráðherra bara hafður í langferðum erlendis. Ég held að ráðherrann sé að heimsækja ein 6–8 lönd í einu slengi og verður hálfan mánuð í burtu. (Gripið fram í: Það tefur ekki þingstörf á meðan.) Það tefur ekki þingstörf á meðan en hún er heldur ekki hér til að svara fyrir syndir sínar á meðan.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að menn ættu að skoða hvort ekki væri ráðlegt að endurskipuleggja raforkumarkaðinn í landinu þannig að til yrðu svæðisfyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða var. Ég held að það væri gott fyrir þennan geira ef sjálfstæð, öflug svæðisfyrirtæki, sem gætu reist og rekið minni og meðalstórar virkjanir og annast lágspenntari flutningskerfin og smásöludreifinguna, væru til staðar. Fyrir Norðurland hefði verið gráupplagt að stofna slíkt fyrirtæki úr þeim hluta Rafmagnsveitna ríkisins sem þar er, auðvitað er Norðurland og Austurland mjög stór hluti markaðssvæðis Rariks og stærsti hlutinn, og þeim svæðisfyrirtækjum og orkufyrirtækjum sem sveitarfélög á svæðinu eiga. Úr því hefði getað orðið býsna öflugur svæðisaðili og ég held að það hefði verið gæfulegra skipulag en það sem ríkisstjórnin ætlar nú að gera með þessari ríkisvæðingu, ríkiseinokunar- og fákeppnisrisasmíði sinni, sem ætlunin var að gera með sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og orkubúsins. Er einhver framtíðarsýn í þessu? Eru menn eitthvað að hugsa? Eru menn eitthvað að velta því fyrir sér hvað væri skilvirkasta kerfið fyrir þjóðina, fyrir landsmenn? Nei, þetta er redding. Það átti að fara út í reddingu vegna bágrar eiginfjárstöðu Landsvirkjunar og þá láta menn bara öll samkeppnissjónarmið lönd og leið, allt talið um samkeppnismarkað á sviði raforkumála a la orkutilskipun Evrópusambandsins eða hvað það nú er, og fara út í svona sullumbull.

Það gefst þá, virðulegur forseti, tækifæri til að taka þetta betur til skoðunar bak jólum ef svo illa skyldi vilja til að ríkisstjórnin hætti ekki við þessa vitleysu sem ég hef mesta trú á. Ég hef ekki mikla trú á því t.d. ef Samkeppnisstofnun kynni að fella þann úrskurð á næstunni að stofnun Orkusölunnar væri ólögleg, bryti á bága við samkeppnislög, að menn hefðu kjark í sér að koma og sýna mönnum svona plagg bak jólum. Vonandi vitkast menn og við þurfum ekki að eyða meiri tíma í þetta.