133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[18:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni vangaveltur sínar. Þær eru fullkomlega eðlilegar. Það er auðvitað snautlegt til þess að vita að mál af þessu tagi skuli vera tekið á þessum hraða hér í gegnum þingið. Menn sjá að nefndin öll hefur verið meira og minna á undanhaldi með þetta mál frá því að það kom hér fram.

Aðeins til þess að bregðast við því sem hv. þingmaður sagði hér síðast varðandi það hvort þyrfti kannski að auka eigið fé enn meira en um þessa 17 milljarða sem mögulega mundu styrkja stoðir Landsvirkjunar með því að Orkubú Vestfjarða og Rarik gengju þar inn.

Þá vil ég benda hv. þingmanni á það að nú hafa stórfyrirtæki, bæði á fjármálasviði og orkufyrirtæki, eins og olíufyrirtækin eru farin að kalla sig, látið í ljósi skoðanir og beinlínis stefnu um að þau hyggist koma inn á orkumarkaðinn og hyggist hasla sér völl á orkusviði.

Þess vegna vil ég segja við hv. þingmann. Já, það er talsverð hætta á því að fyrirtæki annars staðar að úr litrófi stórfyrirtækja á landinu eigi eftir að sækjast eftir því að komast þarna að og komi til með að verða þá nýtt til að styrkja enn frekar eiginfjárstöðu Landsvirkjunar.

Þannig að mitt svar við þeim vangaveltum, þó ég sé kannski ekki þess umkomin að gefa honum svar sem byggir á stjórnvaldsákvörðunum, þá hef ég það fastlega á tilfinningunni að þarna ætli menn sér ákveðna hluti og Landsvirkjun og reyndar stjórnvöld viti af þessu og þess verði skammt að bíða að aðrir aðilar komi þarna að með fjármuni sem styrki eigið fé Landsvirkjunar enn frekar.