133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[18:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað hárrétt athugað hjá hv. þingmanni, réttindin sjálf eru að verða æ verðmætari og samlíkingin við sjávarútveginn er fullkomlega réttmæt. Við skyldum skoða allt þetta mál í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af kvótakerfinu og þeim rétti sem þar er í fólginn til að veiða úr fiskstofnunum okkar. Þess vegna segi ég að það er önugt að horfa til þess að þetta mál skuli vera afgreitt með slíku hraði út úr þinginu.

En að lokum vil ég segja í síðara andsvari mínu við hv. þingmann, af því ég nefndi fjármálafyrirtækin og olíufyrirtækin sem hafa hug á því að komast inn á þennan raforkumarkað okkar og hafa gefið um það yfirlýsingar, að það er líka heimilt samkvæmt samningnum að þau kaupi rétt af Landsvirkjun.

Því Landsvirkjun hefur í þessum samningi möguleika á því að losa eignir út úr fyrirtækinu þannig að á þann hátt gætu þessi stóru og sterku fyrirtæki sem eru að gerast æ frekari til fjörsins á okkar markaði, eignast, hver veit hversu stóran hluta úr þessum fyrirtækjum sem hingað til hefur verið sameign okkar.