133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[18:24]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn verði að hugsa þetta betur. Sjáum t.d. öll réttindin sem safnast saman inni í Landsvirkjun ef Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik eru orðin eitt fyrirtæki með öllum réttindum sem hvert og eitt fyrirtæki hefur til virkjunar og verðmætin eru komin í réttindin. Þá sjáum við í hendi okkar að það eru tugir milljarða kr. verðmæta sem eru bara í réttindunum.

Síðan einkavæða menn Landsvirkjun, segi ég. Það er það sem ég sé fram undan að verði gert. Ekki það að ég sé að leggja það til eða styðja það. En ég sé fram á að það verði gert og fjármálafyrirtæki komist yfir réttindi. Og það sem ég hygg að verði vandinn er að þau komast yfir réttindin fyrir brot af þeim verðmætum sem þau í rauninni eru. Alveg eins og menn gátu keypt bankana fyrir brot af þeim verðmætum sem í þeim fólust og alveg eins og menn hafa komist yfir fiskveiðiréttindin fyrir brotabrot af þeim verðmætum sem í þeim felast.

Við megum ekki einn ganginn enn, láta úr höndum almennings, úr höndum ríkisins fyrir hönd almennings, verðmæt réttindi á tombóluverði. Við verðum að búa þannig um hnútana í þessu máli að réttindin verði í almannaeigu og þeir sem nýta þau og vinna úr þeim borgi eðlilegt afgjald til ríkisins fyrir notin á þeim. Það er það sem við verðum að gæta okkur á í þessum raforkumálum að missa ekki út úr höndunum á okkur.