133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:14]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málflutningur hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi skólameistara á Hólum, er alveg með ólíkindum. Hann talar um að verið séð níðast á öryggi Hólaskóla. Það er svo fjarri lagi. Þetta ákvæði sem er í lögunum núna er hliðstætt því sem var við stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands en það er ekki hægt að bera það saman við það þegar Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands sameinast, þar eru tveir háskólar sameinaðir. Í þessu tilviki er framhaldsskóli að færast yfir á háskólastig og það er því mjög eðlilegt og undir öllum kringumstæðum æskilegt að gefa stofnuninni og stjórnvöldum hennar tækifæri til að skipuleggja starfsemi og starfsmannahald frá grunni í samræmi við stöðu Hólaskóla sem háskóla. Reynslan af þessu fyrirkomulagi er góð, samanber Landbúnaðarháskóla Íslands sem blómstrar nú í sinni mynd.

Það er miklu erfiðara og óhagkvæmara undir öllum kringumstæðum fyrir stjórnvöld og skólann að aðlaga starfsmannahaldið að eðlilegu skipulagi háskólans. Í því sambandi má taka fram að gerðar eru aðrar kröfur um menntun og starfsreynslu starfsmanna innan háskóla og framhaldsskóla og því verður að vera hægt að ráða núverandi starfsfólk inn í nýtt skipulag frekar en vera bundið af því gamla. Því fer fjarri að verið sé að setja öryggi stofnunarinnar eða samfélagsins á Hólum í uppnám við þessar breytingar. Verið er að skapa þessari mikilvægu menntastofnun og þeim sem við hana starfa tækifæri til sóknar inn í glæsta framtíð. Allir starfsmenn Hólaskóla munu fá starf við skólann áfram.