133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég benda á að ég styð eindregið það að skólanum verði breytt í Háskólann á Hólum, enda er ég með á nefndarálitinu hvað það varðar. Það er mikið fagnaðarefni sem ég hef stutt.

Hins vegar koma engin rök fyrir því að segja fólkinu upp. Ég vona, ef málið fer í gegn með þeim hætti sem landbúnaðarráðherra og meiri hluti landbúnaðarnefndar keyra í gegn, með uppsögnum fólksins þótt því sé boðið starf aftur, að þetta raski starfinu sem minnst. En það er engin ástæða til að gera þetta. Það er rangt að gera þetta og ég efast um að það standist lög. Þetta er formbreyting á skólanum og við slík tilvik hefur verið passað upp á að gera þetta ekki.

Ég mundi vilja óska að menn tækju þessa grein til baka, að það þurfi endilega að segja öllu fólkinu upp. Ég vil segja það alveg eins og er. En auðvitað vona ég að þó að þetta gangi eftir þá standi stofnunin það af sér. Ef það gengur eftir, sem líkur eru á.

Ég er með annan lengsta skólastjóraferil á Hólum frá upphafi skólans. (Landbrh.: Þú ferð aldrei í hann aftur.) Það snýst ekki um það, hæstv. ráðherra. Málið snýst um hvort við röskum starfsgrunni þessa skóla að ástæðulausu. (Forseti hringir.) Við ættum að standa vörð um að gera hann að háskóla en sleppa því að segja fólkinu upp.