133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:21]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem nefndarmaður í landbúnaðarnefnd hef ég átt kost á að fylgjast nokkuð með þessu og með Hólaskóla. Þegar ég kom þar fyrst hafði ég ekki gert mér grein fyrir því hve umfangsmikil starfsemi ætti sér þar stað.

Hv. þm. Jón Bjarnason talar um að hér sé bara um formbreytingu að ræða og þess vegna eigi ekki að segja starfsfólkinu upp. Ég spyr hv. þingmann: Finnst honum það formbreyting að kennarar skuli fá stöðu prófessora? Er það formbreyting? Ég vildi líka segja við hv. þm. Jón Bjarnason að hér er um mjög umdeilt mál að ræða en það er til mikilla hagsbóta fyrir skólann og fyrir starfsemi landbúnaðarins almennt á Íslandi.

Um hvað er þá deilt? Það er deilt um að þessi háskóli skuli vera undir hæstv. landbúnaðaráðherra. Um það er ekki aðeins deilt innan menntakerfisins (Landbrh.: Hverjir deila um það?) heldur sýnist mönnum sitt hvað um það víðar. Þess vegna, hæstv. ráðherra, ég hef ekki lokið máli mínu, vara ég við málflutningi Jóns Bjarnasonar. Það að skapa óróa meðal starfsfólksins er bara ekki sanngjarnt vegna þess að það fólk fær allt aðra stöðu í skólanum en það hefur í dag. (Forseti hringir.) Þess vegna er eðlilegt að þessi breyting eigi sér stað.