133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og ég eigum það sameiginlegt að vilja standa vörð um sérskólana. Ég tel að það hafi verið rangt þegar Vélskólinn og Stýrimannaskólinn, voru lagðir niður og (GHall: Alveg sammála.) færðir undir menntamálaráðuneytið. Ég er þess vegna eindregið þeirrar skoðunar að landbúnaðarskólinn eigi áfram að vera undir landbúnaðarráðuneytinu. Það er mikill styrkur fyrir svona sérskóla að eiga náin tengsl við atvinnuvegaráðuneytin og atvinnuveginn. Í því felst styrkur.

Hitt vil ég benda á, að stofnunin er fyrst og fremst það fólk sem þar starfar, starfsmenn og nemendur á hverjum tíma. Það breytir ekki ráðningarformi á þessu fólki eða kaupi þótt þessi breyting gangi í gegn. Breytingin er í sjálfu sér mikið fagnaðarefni en í greinargerðinni með frumvarpinu segir að hér sé fyrst og fremst um formbreytingu að ræða. Það orð er því ekki neitt sem ég fann upp hjá sjálfum mér. Ég legg áherslu á að hversu gott sem þetta er þá er ástæðulaust að segja fólkinu upp og rjúfa við það ráðningarsamninginn, þótt þessi ágæta breyting sé látin ganga yfir um lagalega umgjörð stofnunarinnar.