133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:25]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt af þeim sökum sem ég varaði við að hræra í þessu máli, að ég var á sínum tíma alfarið á móti því að Sjómannaskólinn, þ.e. Stýrimannaskóli og Vélskóli, færu undir menntamálaráðuneytið. En svo hefur orðið og hefur aðlagast nútímanum og mun ekki horfið til baka með það.

Varðandi formbreytingar þá þykja mér þær heldur vera léttvægar sé litið til þess að í þeim felst að kennarar við skólann fá stöðu prófessora, dósenta, lektora og stundakennara. Þarna er um allt annað ræða. Þetta er ekkert smámál.

Ég veit að fjöldi fólks áttar sig ekkert á því sem þarna er að gerast. Þarna eru þrjú svið kennslu og rannsókna, þ.e. hrossaræktar og hestamennsku, á sviði fiskeldis og síðast en ekki síst á sviði ferðaþjónustu í dreifbýli. Þetta er ekki smámál fyrir hina dreifðu byggð. Ég trúi því ekki að tekið verði á starfsfólki með einhverjum fantaskap enda er það ekki í umræðunni. Það hefur komið fram áður hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að þessi góði starfskraftur verði áfram nýttur en hann fær allt annað hlutverk.

Það getur ekki verið að það sé vilji hv. þm. Jóns Bjarnasonar að allt verði óbreytt með starfsliðið og það fái ekki stöðu miðað við þá þekkingu og menntun sem er gerð krafa til þegar Háskólinn á Hólum tekur til starfa.