133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:29]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að nú hillir undir að loforð það sem Hólaskóla var gefið í sumar og okkur öllum velunnurum skólans í afmælisgjöf verði efnt með því að skólinn verði formlega gerður að háskóla með lagasetningu. Eins og mörgum og jafnvel flestum er kunnugt hefur skólinn stundað kennslu og merkilegar rannsóknir á háskólastigi árum saman í samvinnu við aðra háskóla bæði hérlendis og erlendis. Það er mikill áfangi að skólinn skuli nú fá þessa viðurkenningu og stöðu í lögum eins og lagt er til með frumvarpinu sem við fjöllum um í dag.

Frumvarpið er ekki mikið að vöxtum og ekki hafa margar breytingartillögur komið fram við það, en þó ein sem ég fagna líka sérstaklega. Það er tillaga sem kemur fram frá landbúnaðarnefnd um að skólanum skuli heimilt að stofna til kennslu og rannsókna á öðrum fræðasviðum en talin eru upp í hinu upphaflega frumvarpi, enda gert að skilyrði að fjármögnun verði tryggð áður en til þess komi. Þetta er sjálfsögð og eðlileg viðbót við frumvarpið eins og það var lagt fram því að auðvitað verður að gefa skólum og stofnunum, hverju nafni sem þær nefnast, tækifæri til að þróast í takt við tímann. Starfsfólk Hólaskóla hefur svo sannarlega sýnt það með störfum sínum að því er fyllilega treystandi til að þróa skólann og fylgjast með kalli tímans.

Aðrar breytingartillögur sem koma frá landbúnaðarnefnd eru minni háttar og hv. formaður landbúnaðarnefndar hefur farið rækilega í gegnum þær fyrr í kvöld. Ég ætla því ekki að fjalla meira um þær. En hv. þm. Jón Bjarnason hefur lagt fram breytingartillögu varðandi ráðningarmál starfsmanna og farið um þau mörgum orðum. Svo kann að virðast að ekki sé nauðsynlegt að segja upp starfsfólkinu en ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp ákvæði til bráðabirgða um einmitt þetta efni.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Störf hjá Hólaskóla eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Starfsfólki stofnunarinnar skulu boðin störf hjá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum.“

Ákvæði þetta er hliðstætt þeim ákvæðum sem sett voru í lögin um stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands. Að vísu var verið að sameina þrjár stofnanir þegar Landbúnaðarháskóli Íslands var settur á fót, eins og fram hefur komið áður, en hér er ekki verið að sameina Hólaskóla annarri stofnun eða öðrum heldur aðeins verið að færa skólann eins og hann er í dag á háskólastig. Hins vegar fylgir því í sjálfu sér breyting þegar skóli er færður á háskólastig, eins og kemur fram í breytingartillögu hv. þm. Jóns Bjarnasonar en þar er m.a. sagt að þeir einir geti orðið prófessorar, dósentar og lektorar við Hólaskóla sem uppfylla kröfur 34. gr. laganna.

Prófessorsstöður, dósenta- og lektorsstöður eru ekki til við skóla á borð við þann sem Hólaskóli er í dag. Það leiðir því af sjálfu sér að breyta þarf ráðningarferli ýmissa sem starfa við skólann í dag. Ég veit ekki til þess að starfandi sé fólk við Hólaskóla sem þarf að hafa áhyggjur af því að það teljist ekki æskilegir starfskraftar eftir þá formbreytingu sem við erum að gera á skólanum. Ég vil einnig vekja athygli á því að í símaviðtali sem við höfðum bæði við rektor Hólaskóla og fulltrúa starfsmanna spurði ég hvað þeim fyndist um þetta ákvæði. Hvorki fulltrúi starfsmanna — og ég vek sérstaklega athygli á því að fulltrúi starfsmanna gerði ekki athugasemd við þessa tillögu í lögunum — né rektorinn gerði athugasemd.

Ég held að ekki sé ástæða til að óttast þetta jafnhroðalega og hv. þm. Jón Bjarnason virðist gera og vona að hann missi ekki svefn út af því að segja eigi fólkinu upp störfum og bjóða því stöður við hina nýju stofnun, Háskólann á Hólum. Ég treysti því líka að stéttarfélög starfsmanna muni gæta þess að réttindi þeirra, áunnin eða til framtíðar, verði tryggð. Ég hef ekki ástæðu til að halda að sneiða eigi að þessu ágæta starfsfólki á einn eða neinn hátt og finnst ekki neitt benda til þess að á því sé hætta þegar ekki koma athugasemdir við þessa grein frá fulltrúa starfsmannanna. Mér finnst þessi gerningur sem við erum að fást við í dag mjög gleðilegur og óska öllu starfsfólki Hólaskóla til hamingju með það sem í vændum er þó að gerðin sé ekki fullkomnuð en það verður núna á næstu dögum.