133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er rétt að engin óvissa skapist, að alla starfsmenn eigi að ráða og engin réttindi eða kjör eigi að skerða, hvers vegna þarf að segja fólkinu upp? Og hvers vegna er ekki hægt, ef einhverjar breytingar þarf að gera, að einbeita sér að þeim nauðsynlegu breytingum í stað þess að segja öllu starfsfólkinu upp? Það er mat stéttarfélagsins, mat SFR í því tilviki sem ég vísa til og BSRB, að til uppsagna þurfi ekki að koma vegna þessara kerfisbreytinga.

Sannast sagna þóttu mér ómakleg ummæli hæstv. ráðherra í garð Jóns Bjarnasonar, sem réttilega vill standa vörð um réttindi og kjör starfsmanna. Það er ekkert athugavert við það, heldur er það nokkuð sem ég sé ástæðu til að taka undir.

Varðandi ummæli hæstv. ráðherra, um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggist gegn ríkisvæðingu Landsvirkjunar, þá er það harla undarleg niðurstaða sem hann kemst þar að.

Ég skal lýsa þeirri sérskoðun minni, sem er ekki sameiginleg með öllum flokksbræðrum mínum og -systrum, að mér hefur fyrir mitt leyti ekki fundist Reykjavík eiga siðferðilegt tilkall til milljarðanna í Landsvirkjun. Af þeim sökum hef ég sjálfur haft efasemdir um þessa sölu.

En ástæðan fyrir því að við sem flokkur höfum lagst gegn þessum viðskiptum eru yfirlýsingar systur hæstv. ráðherra í andanum, flokkssystur hæstv. ráðherra Guðna Ágústssonar, Valgerðar Sverrisdóttur, (Gripið fram í.) fyrrverandi iðnaðarráðherra, sem hefur lýst því yfir að til standi að (Forseti hringir.) einkavæða Landsvirkjun á komandi ári. (Forseti hringir.) Það er ástæðan fyrir afstöðu okkar.