133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil leiðrétta hjá hæstv. landbúnaðarráðherra. Í fyrsta lagi sat ég í landbúnaðarnefnd þar sem málið var til umfjöllunar. Þar sat hæstv. ráðherra ekki. Þar spurði ég alla sem komu á fund nefndarinnar hvort nauðsynlegt væri að segja fólki upp vegna þessara breytinga. Einu aðilarnir sem héldu því fram voru sendimenn ráðherranna. Aðrir gerðu það ekki og töldu svo ekki vera.

Hæstv. ráðherra gerði lítið úr því og gaf í skyn að ég hefði spurt að þessu í landbúnaðarnefnd. Það er bara misskilningur hjá ráðherranum. Ég veit að hv. formaður landbúnaðarnefndar, Drífa Hjartardóttir, getur staðfest það. Skoðun mín var alla tíð klár innan landbúnaðarnefndar hvað þetta varðar.

Hins vegar kom ráðherra einmitt inn á það sem ég tel að ekki eigi að gera. Hann sagði að það þyrfti að endurskipuleggja starfsemi stofnunarinnar frá grunni. Það þarf einmitt ekki. Það er þetta fólk, í gegnum störf sín og veru, sem hefur verið á Hólum í dag og undanfarin ár, sem hefur byggt upp stofnunina, byggt upp störfin og gert hana að því sem hún er. Þá byrjar maður ekki á að segja að það þurfi að endurskipuleggja starfsemina frá grunni þótt þessi formbreyting sé gerð.

Maður á að sýna starfsfólkinu þá virðingu og gera sér grein fyrir því að stofnunin byggir á starfsfólkinu. Styrkleiki hennar liggur í þessu starfsfólki en ekki hugmyndum manna um að endurskipuleggja hana frá grunni þótt þessi gleðilega breyting sé gerð á lagaumgjörð hennar, að hún fái að reka hluta starfsemi sinnar sem formlegan háskóla. (Forseti hringir.)