133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[21:00]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í rauninni þarf ég ekkert að deila um þetta við hv. þingmann. Það kom hér fram í umræðunni að rektor Hólaskóla og fulltrúi starfsmanna lögðust ekki gegn þessari breytingu. Ég hef rakið hvers vegna talið er mikilvægt að gera þetta. Það verður fullkominn háskóli sem tekst á við þau verkefni sem þar eru og vonandi mörg ný til viðbótar. Ég er mjög hissa á hv. þm. Jóni Bjarnasyni að ala á ótta og efa. Það er búið að lýsa hinu margoft yfir. Ég hefði viljað hafa þennan gamla, góða skólastjóra sem samherja minn í málinu og vissulega fær hann að fylgjast með því sem þingmaður kjördæmisins og auðvitað maður sem þykir vænt um þennan gamla vinnustað sinn, ég efast ekkert um það. (ÖS: Hvað með helsta stuðningsmann Hólaskóla hér?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson þarf að koma að Hólum með mér. Hann er (ÖS: Er kennt á Hólum?) mikill sérfræðingur þar, sérstaklega í einni grein sem snýr að fiskeldi og svo hefur hann komið þar við kennslu einhvern tímann í gamla daga. Það er langt um liðið. Það væri svo sem ágætt að hafa hann þar nokkra daga í því mikla námi sem við erum að hugsa um saman í kringum íslenskan landbúnað. (ÖS: Viltu losna við mig héðan?) (Gripið fram í: Hann verður næsti skólastjóri á Hólum.)

Ég vil bara að lokum segja að ég vona að öllum efasemdum hafi verið svarað hér og ég fullvissa menn um að það verður mikill friður um þessa breytingu, Hólaskóli verður að háskóla og starfsfólkið mun fagna þeim tímamótum og eiga ný (Forseti hringir.) tækifæri með þessum glæsilega skóla.