133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[21:05]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að skólar byggjast auðvitað fyrst og fremst á því góða fólki sem þar kennir og stundar vísindastörf og þannig er það með Hólaskóla. Hér er talið mikilvægt að gera þessa breytingu til þess að treysta stöðu háskólans horft til framtíðar.

Ég trúi því að hv. þingmaður láti nú af öllum mótþróa og hætti þessu efasemdartali. Hólaskóli verður sterkur eftir þessa breytingu og starfsfólkið sem þar vinnur fær störf áfram og sér þennan skóla rísa til nýrra hæða og nýrra tækifæra.

Eftir að hafa hlustað á það stagl sem hér kemur aftur og aftur af hálfu vinstri grænna (Gripið fram í.) sannfærist ég um þetta sem ég var að segja áðan, að gamli kommúnistaflokkurinn frá Kína sem lagðist meira að segja gegn söng og dansi er upprisinn í íslenska þinginu á 21. öldinni. Þetta er nokkuð sem við verðum auðvitað að búa við. Hv. þingmenn hafa verið hér á móti, ég vil segja nánast öllum málum sem hér hafa komið upp og meira að segja þessu sem við höfum gert í öðrum tilfellum (JBjarn: Það er rangt, þú ert að fara með …) við svona (Gripið fram í.) breytingar. Kann ekki að segja ósatt. Sannleikurinn er mér í blóð borinn frá (Gripið fram í.) barnæskunni á Brúnastöðum þannig að það er ekkert ósatt.

Ég fullvissa hv. þingmann um það að starfsfólkið fær störf og Hólaskóli verður í nýrri og mikilvægri stöðu fyrir íslenskan landbúnað, íslenska þjóð og við munum sjá í samstarfi Háskólans á (Forseti hringir.) Hólum og kirkjunnar þar rísa mörg ný (Forseti hringir.) tækifæri.