133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[21:07]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu. Lagafrumvarpið gengur út það að breyta Hólaskóla, fyrrum Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal, nú Hólaskóla, í Háskólann á Hólum.

Ég verð að lýsa því yfir að ég fagna því mjög að þetta frumvarp skuli hafa komið fram. Það hefur verið til afgreiðslu í landbúnaðarnefnd og við nefndarmenn höfum farið yfir það í góðri sátt. Það eina sem hlýtur að vekja manni efasemdir er einmitt að það eigi að segja upp starfsfólki, og við skulum rétt bara vona að hæstv. landbúnaðarráðherra verði nú maður orða sinna. Ég hygg að norður í Skagafirði hafi verið tekið eftir orðum hans hér í kvöld og ég hygg að menn muni ganga eftir því að hann efni þau loforð sem hann hefur gefið (ÖS: Hann kann ekki að segja ósatt.) hér í ræðustól á Alþingi. Hann kann ekki að segja ósatt, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Við skulum vona að það sé rétt.

Ég hef ákveðnar efasemdir og hef varann á mér og við munum fylgjast grannt með því að hæstv. landbúnaðarráðherra reynist maður orða sinna hér í kvöld.

Þar fyrir utan hefur, eins og ég sagði, þetta frumvarp verið afgreitt í mikilli og góðri sátt í landbúnaðarnefnd. Hún gerði nokkrar breytingartillögur. Besta breytingartillagan finnst mér vera sú að við opnum á það að Hólaskóla verði gert kleift að stofna til náms og rannsókna á öðrum fræðasviðum en þeim sem eru tilgreind í þessu frumvarpi að því tilskildu náttúrlega að starfsemin uppfylli þau skilyrði sem við höfum til viðurkenningar varðandi starfsemi háskóla.

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt að hafa inni því að Hólastaður er mjög merkilegur staður. Hólaskóli er merkilegur skóli með langa sögu, og miklar hefðir vil ég segja. Spennandi hlutir hafa verið að gerast norður í Skagafirði. Ég hygg að með því að halda þessari glufu opinni, ef svo má segja, séum við að opna fyrir mjög spennandi og skemmtilega möguleika til fræðaiðkana og vísindamennsku að Hólum í Hjaltadal.

Enn og aftur, virðulegi forseti, mér þykir mjög ánægjulegt að þetta frumvarp sé komið fram. Mér finnst það sérstaklega ánægjulegt vegna þess að á þessu ári eru liðin 20 ár frá því að hv. þm. Jón Bjarnason, þáverandi skólastjóri Bændaskólans á Hólum, útskrifaði mig sem búfræðing frá Bændaskólanum á Hólum. Það segir kannski meira en margt um það hve skrýtnir örlagaþræðirnir geta verið að við skulum nú báðir hafa átt aðild að þessari vinnu í landbúnaðarnefnd. Mér þykir kannski eilítið verra að Hvanneyrarsveinninn Guðni Ágústsson, hæstv. landbúnaðarráðherra, skuli vera landbúnaðarráðherra, ég hefði miklu frekar kosið að landbúnaðarráðherra hefði verið hv. þm. Jón Bjarnason.