133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[21:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar starfsfólki er sagt upp störfum og því jafnframt sagt að fyrir dyrum standi umfangsmiklar skipulagsbreytingar skapar það óvissu. Þá horfa menn iðulega til síns stéttarfélags og það hefur starfsfólkið á Hólum gert. Stéttarfélagið hefur farið í saumana á málunum og komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði þurft og ekki þyrfti að koma til uppsagna og hefur beint því til ráðuneytisins að það endurskoði þá afstöðu.

Ég ætla, hæstv. forseti, að frábiðja að málefnaleg rök og málefnalegar óskir af þessu tagi séu hafðar að háði og spotti eins og hæstv. landbúnaðarráðherra gerði hér áðan með tilvísan í 2000 ára gamla Kínasögu og annað af því tagi. Þetta er málefnaleg umræða. Hún fjallar um alvarleg málefni og það er alveg ástæðulaust að hafa þau í flimtingum og kalla það stagl þegar menn setja fram mál sitt með þessum hætti.

Ég vona að þessar breytingar hjá Hólaskóla takist vel. Ég óska Hólaskóla bjartrar framtíðar og ítreka fyrri ummæli mín um að ég tel að hér sé stigið mjög mikilvægt framfaraspor. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með framvindu mála varðandi þau áhyggjuefni sem við höfum reifað í tengslum við þessar breytingar.