133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

loftferðir.

389. mál
[21:16]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Á fund nefndarinnar komi fjöldi aðila.

Í frumvarpinu er lagt til að tryggja frekari lagastoð fyrir innleiðingu EES-gerða sem teknar hafa verið inn í EES-samninginn en ekki hafa verið innleiddar í íslenskan rétt ásamt nokkrum öðrum breytingum sem nauðsynlegar þykja. Nokkrar helstu breytingarnar eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er mælt fyrir heimild Flugmálastjórnar Íslands til að banna flug tiltekinna loftfara í íslenskri lofthelgi á grundvelli flugöryggis. Í öðru lagi er flugrekendum gefið frekara svigrúm til að skrá loftfar hér á landi. Í þriðja lagi er fjallað um rétt fatlaðra og hreyfihamlaðra. Í fjórða lagi er lagt til að ríkisstjórnin fái heimild til að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæma viðurkenningu réttinda, skírteina, heimilda, starfsleyfa og vottunar á sviði loftflutninga.

Virðulegi forseti. Segja má að það sem hefur gerst í íslensku flugi sé nokkuð merkilegt þegar til þess er litið að alls eru rúmlega 400 flugvélar skráðar á Íslandi og þar af rúmlega 60 stórar þotur. Eitt af því sem við höfum staðið frammi fyrir er mikill hagvöxtur hér á landi og það sýnir sig að hvað flugmál varðar hafa menn haldið vel vöku sinni og þeirri miklu aukningu sem orðið hefur á farþegaflugi hefur verið mætt af mikilli skynsemi og með þeim hætti að íslenskum aðilum þykir það eftirsóknarvert að skrá þotur og flugvélar hér á landi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Kristján L. Möller og Anna Kristín Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifuðu 29. nóvember 2006 Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Guðjón Hjörleifsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Jón Kristjánsson, og Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara.