133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[21:28]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta álit með fyrirvara eins og ég hef gert öll þau ár sem þetta mál hefur komið hér til afgreiðslu, þ.e. hækkun í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Ég hef gert athugasemdir við tvennt, þ.e. að nefskattur sem þessi kemur verst niður á þeim sem hafa minnstu tekjurnar, því að hann er jafn á alla, og um það hef ég ákveðnar efasemdir.

Síðan hef ég gert athugasemdir vegna þess að fjármunir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafa ekki skilað sér í það sem þeir voru ætlaðir til, þ.e. í uppbyggingu á hjúkrunarrýmum. Á meðan ástandið er eins og það er í hjúkrunarmálum þjóðarinnar er ekki viðunandi að slíkir markaðir tekjustofnar skili sér ekki í þau verkefni sem þeim er ætlað að renna til.

Í næsta máli sem kemur hér til umræðu á eftir þessu er verið að gera breytingartillögu á lögum um málefni aldraðra. Þar er lagt til að ekki verði heimilað að nýta þessa fjármuni í rekstur eða annað heldur í uppbyggingu einvörðungu. En ríkisstjórnin setur engu að síður bráðabirgðaákvæði í þá veru að þeir ætla að nota þetta áfram í rekstur fram yfir næstu kosningar. Peningarnir eiga því ekki að skila sér einvörðungu í uppbyggingu fyrr en eftir að þessi ríkisstjórn er farin frá. Það sýnir best hvaða hugur fylgir máli í þessum efnum. Þeir ætla ekki að skila þessum peningum í uppbygginguna fyrr en þeir eru farnir frá samkvæmt bráðabirgðaákvæði í næstu lögum sem við tökum fyrir hér í frumvarpi til laga um málefni aldraðra.

Ég geri því fyrirvara hvað þetta varðar og minni þingheim á að stjórnarandstaðan, þ.e. Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndir, leggur það til í næsta máli að allur nefskatturinn fari í uppbyggingu. Við skulum taka út heimildina til þess að nota hann í annað þangað til búið er að leysa biðlistavandann.