133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:18]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar kemur fram setning sem í sjálfu sér kemur mér ekki spánskt fyrir sjónir en samt er ástæða til að fjalla um. Þar segir að eldri borgarar hefðu fallist á sameiginlega yfirlýsingu, eins og segir þarna, „undir þrýstingi og hótunum um að hjúkrunarkafli yfirlýsingarinnar yrði tekinn út ef þeir gerðu það ekki“.

Þessi fullyrðing hefur valdið mér heilabrotum og hugarangri vegna þess að í fyrstu fréttum sem bárust af þessu samkomulagi og í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 19. júlí 2006, yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og eldri borgara sem er sameiginleg og undirrituð af báðum aðilum, segir: „Landssamband eldri borgara og ríkisstjórnin fagna í yfirlýsingu því góða samstarfi sem tókst í nefndinni. Það er sameiginleg afstaða ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara að tillögurnar séu til vitnis um gagnlegt samstarf og samráð aðila og endurspegli samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem komi til framkvæmda næstu fjögur árin eins og nánar er lýst í tillögum nefndarinnar“.

Þetta er ég með fyrir framan mig undirskrifað af fulltrúum Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnarinnar. Síðan segir eftirfarandi í fréttum Morgunblaðsins 20. júlí, daginn eftir að þessi yfirlýsing var gefin, með leyfi forseta:

„Fagnaði Ólafur“ — fyrrverandi landlæknir og formaður Landssambands eldri borgara — „sérstaklega verulegri hækkun á lífeyrisgreiðslum, sérstaklega þeirra sem væru með lægstu ellilaunin en þeir væru á bilinu 30 til 40%, að sögn hans.“

Síðan segir aðeins neðar:

„Dregið væri úr áhrifum tekna maka og skerðing vegna annarra tekna yrði minnkuð.“

Og enn aðeins neðar:

„Þá lýsti hann ánægju með að samkomulag hefði náðst um gamalt baráttumál um frítekjumark atvinnutekna.“ (Forseti hringir.) Þessi yfirlýsing ber ekki merki um að aldraðir hafi verið beittir þvingunum við undirritun þessa (Forseti hringir.) samkomulags.