133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:20]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef þetta eftir fulltrúum eldri borgara í nefndinni. Þeir hafa bæði lýst þessu yfir í fjölmiðlum og sömuleiðis í nefndinni. Það geta allir sem voru á fundinum vottað um að þeir lýstu því yfir að þeir hefðu fallist á þetta undir þrýstingi. Það voru 14 manns á fundinum hjá nefndinni og þau samþykktu öll að þetta hefði gengið svona fyrir sig.

Aðspurður sagði Ólafur Ólafsson, formaður Landssambands eldri borgara, að þeir hefðu lýst yfir ánægju með hjúkrunarþáttinn, hefðu verið mjög ánægðir með hann, en lífeyriskaflann hefðu þeir ekki verið sáttir við en hefðu undir þrýstingi og hótunum, eins og þeir orðuðu sjálfir, fallist á hann vegna þess að ella hefði hjúkrunarþátturinn verið í uppnámi.

Þetta er nákvæmlega það sem kom fram í nefndinni og er haft hér eftir þeim í þessu nefndaráliti og það geta þeir vottað um sem voru á fundi nefndarinnar.