133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:24]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að fulltrúi ríkisstjórnarinnar, formaður nefndarinnar, Ásmundur Stefánsson, var spurður um þetta. Hann vildi ekki viðurkenna að hann hefði haft í hótunum. En það getur vel verið að hann sem gamall sáttasemjari telji ekki hótanir það sem fulltrúar eldri borgara telja hótanir. (ÁMöl: Þetta er nú reyndur …) Þeim var sagt að ef þeir féllust ekki á þær úrbætur sem voru á borðinu hvað varðar lífeyriskaflann yrði allt samkomulagið sett út af borðinu. (Gripið fram í.) Þar með hefðu þeir orðið að fallast á þetta, ákaflega ósáttir, en töldu þetta þó skref í áttina sem það vissulega er. Þetta er skref. Þeir voru samt alls ekki sáttir við þetta og féllust á þetta undir hótunum. Þetta er orðalag þeirra. Þetta kom fram hjá öllum þeim sem voru þarna fulltrúar eldri borgara.

Ég heyrði líka alveg hvernig Ásmundur Stefánsson talaði á fundinum þar sem hann vildi ekki viðurkenna þetta. (Gripið fram í.) Það voru fleiri þarna frá eldri borgurum sem öll voru sammála um þetta. Þetta hafa þeir líka sagt í fjölmiðlum aftur og aftur og skrifað um það í greinum þannig að greinilega upplifðu þeir þetta sem hótanir (Gripið fram í.) og að þeim væri stillt upp við vegg og féllust á þetta þess vegna og teldu þetta vera fyrsta skref.

Þeir lýstu því reyndar yfir á blaðamannafundinum í ráðherrabústaðnum að þeir mundu koma aftur að hausti til að fara fram á frekari réttindi sér til handa hvað varðaði lífeyrisþáttinn. Þeir hafa lýst yfir stuðningi við þær tillögur sem við leggjum hér fram, þær breytingartillögur sem við leggjum hér fram, og hann liggur fyrir í ályktunum, bæði frá Félagi eldri borgara í Reykjavík og Landssambandi eldri borgara, í (Forseti hringir.) skjölum og álitinu.