133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:30]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmanni er auðvitað vorkunn. Formaður hv. þingmanns, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur lýst því yfir að hv. þingmanni sé ekki treystandi af hálfu kjósenda. Kjósendur treysta ekki hv. þingmanni til starfa, til að fara með stjórn ríkisins og þar með stjórn heilbrigðismála. Ég held að það væri nú (Gripið fram í.) ástæða til að taka það til frekari umfjöllunar, að maður tali ekki um leynipóstinn, verst geymda leyndarmál þingsins þessa dagana, leynipóst formanns Samfylkingarinnar til hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Við skulum láta það liggja á milli hluta.

Það er hins vegar annað, hæstv. forseti, sem ég vildi taka fram. Það varðar unga öryrkja. Ég vek athygli á því að hv. þm. Jón Kristjánsson, á meðan hann var heilbrigðisráðherra, lagði til breytingar sem voru samþykktar á Alþingi sem gerðu það að verkum að bætur til öryrkja væru hærri eftir því sem viðkomandi yrði öryrki yngri. Það var stórkostleg réttarbót, líkt og á mörgum öðrum sviðum að því er varðar málefni eldri borgara og öryrkja.

Það er ekki boðlegt, hæstv. forseti, þegar minni hlutinn í þingsal heldur því ítrekað fram og byggir sitt mál á því að ríkisstjórnin og nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar hafi beitt gamalmenni þvingunum, ofbeldi nánast, hótunum eða mekanískri nauðung. Það er ekki hægt að tala svona, hæstv. forseti. Það er ekki hægt að þrír heilir stjórnmálaflokkar skuli byggja mál sitt á því að ríkisstjórnin beiti eldri borgara nauðung. Það er fásinna, hæstv. forseti.