133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[23:00]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla fullyrðingu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um að kjör aldraðra og öryrkja hafi setið eftir. Það er ekki rétt. Mörg dæmi sýna að það er ekki rétt. Þau voru reyndar afskaplega slæm 1995 og máttu gjarnan batna, en þau hafa ekki setið eftir.

Meginbreytingin í þessum tillögum og hugmyndum er að 60% af launum öryrkja og aldraðra koma til skerðingar. Það þýðir að í staðinn fyrir 45% skerðingu er skerðingin 24%. Skerðingin lækkar úr 45% niður í 24% og eftir eitt ár, árið 2008, fer hún niður í 23%.

Það þýðir að maður sem er með 200 þús. kr. launatekjur á mánuði, aldraður eða öryrki — nú gildir sama reglan — er skertur um 24% af þessum 200 þús. kr., þ.e. um 48 þús. kr.

Bæturnar sem hann hafði eru 128 þús. þannig að hann fær til viðbótar við 200 þús. kr. tekjurnar sínar 80 þús. kr. Hann er sem sagt með 280 þús. kr. á mánuði ef hann er einhleypur. Þetta er aðal- og meginbreytingin. Þetta mun hvetja fólk til að vinna umfram það sem verið hefur.

Þá myndast nýr vandi, vandi þeirra öryrkja og aldraðra sem ekki geta unnið. Munurinn á milli þeirra og öryrkja og aldraðra sem geta unnið, herra forseti, verður mjög áberandi, líka munurinn á milli aldraðra og öryrkja sem vinna við hlið annars manns með sömu laun sem ekki er aldraður eða öryrki. Ef allir þrír eru með 200 þús. kr. á mánuði er öryrkinn og hinn aldraði með 80 þús. kr. meira á mánuði. Það er nýr veruleiki sem almenningur þarf að sætta sig við og ég geri ráð fyrir að hann sé alveg tilbúinn til þess.

Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Hann varðar séreignarsparnað og uppsafnaðar fjármagnstekjur fólks sem er t.d. að selja spariskírteini sem eru búin að standa á vöxtum í 10 ár. Það er mjög auðvelt fyrir þetta fólk ef það hefur þekkingu og ráðgjöf að innleysa hvort tveggja ári áður en það fer á lífeyri, bæði séreignarsparnaðinn og langtímafjármagnstekjurnar, en þeir sem ekki vita og ekki kunna og ekki vilja geta lent illa í því. Þess vegna hef ég samið frumvarp sem verður væntanlega dreift á morgun um það að séreignarsparnaður komi ekki til frádráttar frekar en annar sparnaður sem menn stunda í bankakerfinu sem er frjáls — séreignarsparnaðurinn er frjáls — og heldur ekki langtímafjármagnstekjur, fjármagnstekjur sem er aflað til áður en menn fóru á lífeyri. Það er til að mismuna ekki þeim sem hafa vit og þekkingu og hinum sem hafa hana ekki. Að öðru leyti er ég mjög ánægður með þetta frumvarp, styð það eindregið og tel það mikla réttarbót.