133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar.

232. mál
[23:20]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, formaður sjávarútvegsnefndar, hefur farið mjög skilmerkilega yfir þær greinar sem verið er að breyta og talið upp öll þau atriði sem munu breytast með þessu frumvarpi. Hér er verið að breyta lögum um stjórn fiskveiða og ýmsum öðrum tengdum lögum. Það er náttúrlega að vonum þegar farið er að vitna í öll þessi lög með sínum fjölmörgu bráðabirgðaákvæðum, sem eru reyndar orðin miklu fleiri en lagagreinarnar, að telja þurfi upp mjög margar tilvitnanir og margar lagagreinar til þess að koma þessu skilmerkilega til skila svo að allir séu með á nótunum.

Efnislega held ég samt að hægt sé að orða þetta þannig að það sé kannski verið að draga úr refsingum, verið að draga úr refsirammanum og setja inn ákvæði um að veita mönnum áminningar og aðvaranir áður en kemur til sviptingar á atvinnurétti, sem gerist með því að menn eru ýmist sviptir veiðileyfi eða vigtunarleyfi, eða öðrum slíkum aðgerðum sem eru í sjálfu sér verulega harðar aðgerðir, því að það tekur náttúrlega í þegar menn eru sviptir atvinnu sinni.

Ég held að frumvarpið í heild sinni sé til bóta að því leyti að gefnar eru aðvaranir og tekið er vægar á minni háttar brotum og því held ég að segja megi að þessi lög bæti kannski aðeins ástandið þó að ég verði seint fyrsti aðdáandi þessa kerfis sem við vinnum eftir, hæstv. forseti.