133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

fjármálafyrirtæki.

386. mál
[00:03]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd en það er að finna á þskj. 604.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirliti, Guðjón Guðmundsson, og Sigurð Jónsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Einar Þ. Harðarson og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti.

Með frumvarpinu eru leiddar í íslenskan rétt alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja sem byggjast á staðli frá Basel-nefndinni um bankaeftirlit, svonefndum Basel II-staðli, sem uppfærður var í nóvember 2005. Eldri staðall um eigið fé alþjóðlegra fjármálafyrirtækja er að stofni til frá 1988.

Ég ætla ekki að lesa allt nefndarálitið, herra forseti, en geta þess að við umfjöllun um málið í nefndinni barst athugasemd frá Sambandi íslenskra sparisjóða þess efnis að gera þyrfti breytingar á því ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem fjallar um skyldu til innlausnar á stofnfé. Telja forsvarsmenn sambandsins að að óbreyttum lögum muni hluti sparisjóða lenda í vandræðum við gildistöku laganna þar sem stofnfé verði ekki talið sem eigið fé.

Nefndin flytur breytingartillögu um þetta atriði. Lýtur hún að því að innlausnarskylda sparisjóða verði skilyrt til að gera þeim kleift að nýta stofnfé til útreiknings á eigin fé í samræmi við ákvæði nýrra reikningsskilastaðla, þ.e. að ekki sé skylda að innleysa stofnfé nema staða sparisjóðsins leyfi.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi breytingu: Við frumvarpið bætist ný grein sem verði 5. gr. svohljóðandi: 65 gr. laganna orðist svo: Stjórn sparisjóðsins er heimilt að innleysa stofnfjárhluti í sparisjóði að beiðni stofnfjáreiganda.

Nú synjar sparisjóður um heimild til sölu stofnfjárhlutar, samanber 64. gr., eða neytir ekki heimildar til innlausnar hans samkvæmt 1. mgr., og skal hann þá, ef óskað er, hafa milligöngu um sölu hlutarins eða innleysa hann innan árs frá því er skrifleg beiðni kom fram um sölu eða innlausn enda uppfylli sparisjóðurinn eiginfjárkröfur samkvæmt 84. gr. þegar innlausn fer fram. Síðasta ákvæðinu var bætt inn til að takmarka innlausnina.

Fari innlausn stofnfjáreiganda fram skal hlutur innleystur á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 67. gr.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Dagný Jónsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Möller, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson.