133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[00:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mér allt ljóst en ef það gerist að verk tefjist þá á bara að standa að því með hefðbundnum hætti, þá bíður fjárveitingin og veldur þá væntanlega ekki þenslu á meðan hún er ekki notuð. Það er miklu, miklu skynsamlegra að hún bíði þá bara á verkinu eins og venjan er. Þetta er auðvitað gert í mörgum tilvikum, það er önnur framkvæmd sem því miður hefur lent í miklum hremmingum og miklum töfum á sömu slóðum, það er vegur niður að Dettifossi. Það hefur engum dottið í hug að taka fjárveitinguna, hún bíður þess að verkið komist í gang, enda er hún bara fjárveiting og ákvörðun Alþingis um peninga í þá framkvæmd. Það er hinn eðlilegi gangur þessara mála að það sé ekkert verið að hringla með fjárveitingarnar þegar búið er að setja þær niður á einstök verk. Það skapar tortryggni og óróleika gagnvart þeim sem við eiga að búa.

Ef undirbúningurinn gengi nú kannski allt í einu betur, ef verktaki sem treysti sér til að vinna verkið mjög hratt fengi það, þá stæðu menn kannski allt í einu frammi fyrir því að þeir hefðu ekki fjármuni til að greiða inn á verkið jafnhratt og framvinda þess þegar á næsta ári kynni að bjóða upp á. Það er ekkert endilega víst að þetta sé svona að þetta geti ekki haft nein áhrif eða það sé öruggt að þetta hafi engin hamlandi áhrif. Auðvitað er oft hægt að leysa mál af því tagi ef verktíminn er ekki meiri en tvö ár og stundum fást verktakar til að lána sjálfir fjármuni eða fallast á að fá ekki greiðslur fyrr en að liðnum áramótum o.s.frv. en það á ekki að þurfa að vera að standa í slíku skaki í svona tilvikum. Það er lang-, langeðlilegast að fylgja hér bara hefðbundnum leiðum, hefðbundnum aðferðum og láta fjárveitingarnar bíða á þeim verkum sem þær eru eyrnamerktar.