133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut -- ástandið í Palestínu.

[09:44]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu sem framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar og Vegagerðin létu gera og kynntu íbúum Grafarvogs og Laugardals í gær um nýja jarðgangalausn fyrir Sundabraut. Fram kom að hæstv. samgönguráðherra hefur ákveðið að þessi framkvæmd skuli fara í umhverfismat.

Auðvitað hafa nokkrir rætt um jarðagangalausnir í þessu sambandi og þar á meðal framsóknarmenn. Það er rétt að við töluðum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fyrir botngöngum, einmitt af þeim ástæðum sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson kom hér inn á, að sú leið hafði farið í umhverfismat og er það auðvitað jarðgangalausn. Þess vegna fagna ég mjög að sú leið skuli hafa verið skoðuð betur sem varaborgarfulltrúi okkar hér í borginni á sínum tíma, Óskar Bergsson, talaði fyrir. Á þeim tíma var talið að það mundi flækja málið og fresta því og þess vegna var ákveðið að setja hinar tvær leiðirnar í umhverfismat.

Ég held að þessi leið sé mjög farsæl. Þarna hefur náðst samstaða meðal íbúa og þeirra aðila sem að framkvæmdinni koma. Ríkisstjórnin ákvað á sínum tíma að hluta af söluandvirði Símans skyldi varið til þessarar mikilvægu samgöngubótar fyrir Reykvíkinga, 8 milljörðum kr. Einnig hefur komið fram vilji hjá Faxaflóahöfnum og fleiri aðilum að koma að framkvæmd og fjármögnun þessarar mikilvægu samgöngubótar. Nú ríður á að umhverfismatið gangi vel og framkvæmdaáætlanir svo að við getum farið að fara í aðgerðir. Hér erum við að ræða eina mestu samgöngubót fyrir Reykvíkinga í háa herrans tíð. Ég heiti á stuðning annarra þingmanna annarra kjördæma í þessu gríðarlega mikilvæga máli. Íbúar Reykjavíkur eiga það skilið.