133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut – ástandið í Palestínu.

[09:50]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Þetta er búin að vera ansi góð umræða og þá er sérstaklega athyglisverð ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem fór fram á það að ákveðnum mönnum í borgarstjórn yrði hrósað, hann gerðist reyndar ekki svo ósvífinn að biðja um að honum sjálfum yrði hrósað enda engin ástæða til. Hann eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar sem enginn treystir, eins og formaður þess flokks hefur farið ágætlega yfir, hefur barist mjög gegn því að hér sé rætt um borgarmálefni og samgöngumál í Reykjavíkurborg sem þekkt er orðið.

Ef við förum aðeins yfir hvað sá flokkur er búinn að gera hvað varðar Sundabrautina þá var þessi leið tekin út 1998–1999 og ekki sett í umhverfismat. Borgarfulltrúinn Dagur B. Eggertsson lagði mikla áherslu á að lögð yrði einbreið braut inn og út úr borginni, að aðeins einn bíll væri keyrður eftir henni, og var þetta eitt af kosninga málunum fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Á meðan hafa aðrir, eins og borgarfulltrúinn Stefán Jón Hafstein og flestir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar í gegnum tíðina, barist hatrammlega fyrir hábrú sem enginn talar um núna.

Aðalatriði málsins er að þetta er komið í mjög góðan farveg og það er mjög ánægjulegt. Ég hrósa hæstv. samgönguráðherra fyrir þátt hans í málinu. Það er augljóst að nýr meiri hluti er kominn til valda í Reykjavíkurborg sem lætur hlutina gerast. Það er ánægjulegt að sjá að komin er góð samstaða meðal íbúasamtaka bæði Grafarvog og Laugarneshverfis og fleiri aðila þar sem menn bera núna saman þessa valkosti. Þetta er gríðarlega mikilvægt mannvirki og það er gríðarlega mikilvægt að við sjáum fyrir endann á þessu máli og séum ekki í endalausum samræðum um eitthvað sem skiptir litlu máli. Það þarf sannarlega að hafa samráð en það þarf líka að framkvæma, ekki bara að hjala um hlutina. Ég sé fyrir mér að hér sé komin góð samstaða, a.m.k. í þinginu og (Forseti hringir.) vonandi sjáum við meiri umræðu um samgöngumál Reykjavíkurborgar á þessum vettvangi og vonandi sjáum við Sundagöng sem allra fyrst.