133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[10:02]
Hlusta

Ásta Möller (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með samþykkt þess frumvarps sem hér er til atkvæðagreiðslu efnir ríkisstjórnin sinn hluta samkomulags sem ríkisstjórnin gerði við Landssamband eldri borgara 19. júlí í sumar, og reyndar gott betur með þeim breytingum sem meiri hluti heilbrigðisnefndar hefur gert í meðhöndlun þingsins.

Kostnaður vegna frumvarpsins er um 26,7 milljarðar kr. til ársins 2010 að viðbættum 2,3 milljörðum kr. sem koma inn vegna breytinga sem heilbrigðisnefnd leggur til. Alls eru þetta 29 milljarðar kr. til viðbótar til að bæta kjör ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega til ársins 2010, til viðbótar við það sem þegar er. Þegar upp er staðið hækka greiðslur lífeyristrygginga milli áranna 2006 og 2007 um 10,7 milljarða kr. eða úr 32,2 milljörðum samkvæmt fjárlögum 2006 í 42,9 milljarða kr. á næsta ári. Þetta er stórt skref og mikill árangur í baráttu fyrir bættum kjörum lífeyrisþega.